1.675 svör bárust í könnun Maskínu og af rúmlega hundrað sundlaugum landsins voru það þessar fimm sem röðuðu sér á toppinn; Árbæjarlaug með 6,6 prósent atkvæða, Laugardalslaug einnig, Lágafellslaug í Mosfellsbæ þriðja með 7,1 prósent, Sundlaug Kópavogs önnur með 7,4 prósent - og þá vann Sundlaug Akureyrar nokkuð öruggan sigur með 9,7 prósent atkvæða.

„Heyrðu þetta eru náttúrulega bara frábærar fréttir og gaman að heyra, bara takk fyrir það,“ segir Elín H. Gísladóttir forstöðumaður Sundlaugar Akureyrar.
Hvað heldurðu að það sé sem landsmönnum líki við þessa laug?
„Ég hugsa til dæmis að rennibrautirnar hafa alltaf mikið aðdráttarafl og við erum með nokkuð mikla fjölbreytni,“ segir Elín.
Þá má í lokin geta þess að þegar litið er á efstu laugarnar nýtur Sundlaug Akureyrar samkvæmt könnuninni sérstaks stuðnings Framsóknarmanna; 13 prósent þeirra völdu hana uppáhalds. Miðflokksmenn eru hrifnastir af Kópavogslaug, Sósíalistar sækja í Laugardalslaug og Lágafellslaug er vinsælust hjá Flokki fólksins.

Niðurstöður könnunar Maskínu í heild má svo nálgast hér fyrir neðan.
