Fótbolti

Henderson kallaður inn í enska landsliðshópinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jordan Henderson hefur verið kallaður inn í enska landsliðshópinn.
Jordan Henderson hefur verið kallaður inn í enska landsliðshópinn. Visionhaus/Getty Images

Jordan Henderson, fyrirliði enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, hefur verið kallaður inn í enska landsliðshópinn fyrir Kalvin Phillips, leikmanns Manchester City, sem meiddist á öxl á dögunum.

Enska landsliðið leikur tvo leiki í Þjóðadeild UEFA á næstu dögum, gegn Ítölum næstkomandi föstudag og gegn Þjóðverjum þremur dögum síðar.

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, valdi Henderson ekki í hópinn vegna meiðsla sem leikmaðurinn var að glíma við aftan í læri. Hann hefur hins vegar náð sér af meiðslunum og verður því með liðinu í leikjunum tveim.

Þessi 32 ára gamli miðjumaður á að baki 69 leiki fyrir enska landsliðið þar sem hann hefur skorað tvö mörk. hann hefur þó aðeins náð að leika einn leik fyrir liðið á árinu, en það var í 2-1 sigri gegn Sviss í vináttulandsleik í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×