Fótbolti

Segja grímuklædda stuðningsmenn Bröndby hafa ógnað sér

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn FCK segja stuðningsmenn Bröndby hafa ógnað sér á Fjóni í gær.
Stuðningsmenn FCK segja stuðningsmenn Bröndby hafa ógnað sér á Fjóni í gær. Getty/Lars Ronbog

Stuðningsmönnum Bröndby og FC Kaupmannahafnar lenti saman á heimleið til Kaupmannahafnar eftir að bæði lið höfðu verið að spila á Jótlandi í gær, í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Bröndby gerði markalaust jafntefli á útivelli gegn Viborg en FCK tapaði 2-1 á útivelli gegn Midtjylland.

Lögreglan á Fjóni staðfesti að til átaka hefði komið þegar stuðningsmenn liðanna voru á sama áningarstað á leiðinni heim, og í tilkynningu frá FCK segir að ráðist hafi verið á stuðningsmenn liðsins og rúturnar sem þeir ferðuðust í.

Á heimasíðu stuðningsmannafélags FCK segir að í raun hafi grímuklæddir stuðningsmenn Bröndby ráðist að rútunum sem stuðningsmenn FCK ferðuðust í.

Rúturnar hafi stöðvað á áningarstaðnum í von um að rútur Bröndby-stuðningsmanna færu framhjá og áleiðis til Kaupmannahafnar án þess að hóparnir ættu á hættu að mætast. Lögregla hafi jafnframt búið til vegartálma með tveimur lögreglubílum en af óútskýrðum ástæðum hafi ein Bröndby-rútan komist inn fyrir tálmana og úr henni hafi komið menn sem réðust að FCK-rútunum.

Í tilkynningu stuðningsmannafélags FCK segir að hins vegar hafi enginn meiðst og að greiðlega hafi gengið að ná stjórn á aðstæðunum.

„Við erum sorgmædd yfir því að enn einu sinni sé ráðist á friðsæla stuðningsmenn FCK sem reyna að fylgja liðinu sínu eftir. Við erum líka leið yfir því að svona árás verði þegar sérstaklega er reynt að koma í veg fyrir átök og við eigum alltaf í góðum samræðum við lögreglu og stuðningsmannafélag Bröndby til að koma í veg fyrir að rútur liðanna séu á sama stað,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×