Fótbolti

Mbappé þénar mest allra árið 2022

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mbappé á fyrir salti í grautinn.
Mbappé á fyrir salti í grautinn. Xavier Laine/Getty Images

Kylian Mbappé er tekjuhæsti knattspyrnumaður í heimi árið 2022. Hann fær 105 milljónir Bandaríkjadala [14,6 milljarðar íslenskra króna] í laun hjá París Saint-Germain ásamt því að þéna 20 milljónir Bandaríkjadala [2,8 milljarðar] í gegnum auglýsingar og því um líkt.

Hinn 23 ára gamli Mbappé gerði náttúrulega ótrúlegan samning við PSG í sumar þegar allt benti til þess að hann myndi semja við Real Madríd. Það kemur því engum á óvart að hann sé langlaunahæsti leikmaður í heimi. Alls mun Mbappé þéna 125 milljónir Bandaríkjadala í ár.

Hvað varðar laun frá félögum þá eru samherjar hans Lionel Messi og Neymar í öðru og þriðja sæti en í öðru sæti er varðar heildartekjur er Portúgalinn Cristiano Ronaldo. Þessi 37 ára gamli framherji skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu þegar Manchester United vann Sheriff frá Moldóvu 2-0 á dögunum.

Ronaldo fær 53 milljónir Bandaríkjadala frá Man United árið 2022 en þénar 60 milljónir Bandaríkjadala til viðbótar í gegnum hina ýmsu auglýsingasamninga sem hann hefur gert. Alls þénar Ronaldo því 110 milljónir í ár.

Messi er í 3. sæti með 62 milljónir í laun og auglýsingasamninga upp á 48 milljónir. Argentínumaðurinn þénar því 110 milljónir í ár. Neymar er í þriðja sæti en þó töluvert á eftir samherjum sínum. Hann er með laun upp á 56 milljónir en auglýsingasamninga upp á „aðeins“ 35 milljónir.

Mohamed Salah er svo í 5. sæti en eitt nafn á listanum yfir þá tíu leikmenn sem þéna mest kemur skemmtilega á óvart. Það er Andrés Iniesta, Þessi 38 ára gamli Spánverji spilar í dag með Vissel Kobe í Japan og er enn að þéna ótrúlegar upphæðir. Hann fær 23 milljónir í laun og aðrar sjö í gegnum auglýsingasamninga. Listann yfir þá tíu leikmenn sem þéna mest í ár má svo sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×