Fótbolti

Börnin réðu ekki við sig og föðmuðu Messi

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi á ferðinni í Haifa í gærkvöld.
Lionel Messi á ferðinni í Haifa í gærkvöld. Getty

Börnin sem fengu að leiða leikmenn inn á völlinn í leik Maccabi Haifa og PSG í Ísrael í gærkvöld sýndu kostuleg viðbrögð þegar þau sáu sjálfan Lionel Messi.

Liðin mættust í Meistaradeild Evrópu þar sem Messi setti meðal annars tvö ný met í 3-1 sigri eftir að PSG hafði þó lent undir.

Það eru hins vegar viðbrögð krakkanna sem sáu hann fyrir leik sem vakið hafa mesta athygli. Hvert af öðru hættu þau að geta staðið þar sem þeim var ætlað að standa, í beinni röð fyrir framan liðin, og þustu að Messi til að faðma hann, með stjörnur í augunum.

Messi er auðvitað alvanur mikilli athygli hvar sem hann kemur, sem einn allra besti fótboltamaður sögunnar, og hann tók börnunum vel, faðmaði þau og brosti eins og sjá má í myndböndum á samfélagsmiðlum.

Setti tvö ný met

Eins og fyrr segir skoraði Messi í leiknum, þegar hann jafnaði metin í 1-1, og þeir Kylian Mbappé og Neymar tryggðu PSG svo sigur í seinni hálfleik.

Messi hefur þar með skorað á móti 39 ólíkum liðum í Meistaradeild Evrópu og það er met sem hann deildi áður með Cristiano Ronaldo. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem hann skorar á móti ísraelsku liði. 

Þá setti Messi nýtt met með því að skora í Meistaradeildinni átjándu leiktíðina í röð en hann skoraði í henni fyrst tímabilið 2005-06 gegn Panathinaikos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×