Innlent

Þrjár konur í Flokki fólksins stíga fram og lýsa óásættanlegri framkomu í sinn garð

Jakob Bjarnar og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Forystufólk Flokks fólksins fyrir norðan. Tinna Guðmundsdóttir, Jón Hjaltason, Brynjólfur Ingvarsson, Málfríður Þórðardóttir, Hannesína Scheving sem voru í efstu fimm sætum Flokks fólksins á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Forystufólk Flokks fólksins fyrir norðan. Tinna Guðmundsdóttir, Jón Hjaltason, Brynjólfur Ingvarsson, Málfríður Þórðardóttir, Hannesína Scheving sem voru í efstu fimm sætum Flokks fólksins á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Flokkur fólksins

Þær Málfríður Þórðardóttir, Tinna Guðmundsdóttir og Hannesína Scheving Virgild Chester, sem allar hafa starfað í Flokki fólksins á Akureyri, hafa nú stigið fram og lýst lítilsvirðandi framkomu í sinn garð og í sumum tilfellum kynferðislegri áreitni.

Vísir greindi frá yfirlýsingu Guðmundar Inga Kristinssonar, varaformanns Flokks fólksins í morgun, þar sem hann greinir frá því að hann vilji kalla saman stjórnarfund þar sem farið verður yfir alvarlegar ásakanir um ólíðandi framkomu í garð kvenleiðtoga flokksins á Akureyri.

Konurnar sem um ræðir hafa nú stigið fram og lýst því hvað um ræðir og líðan – sinni sögu. En það gera þær að sögn í kjölfar orða varaformannsins. Þar tala þær um „ömurlega reynslu af samskiptum við þessa ónefndu karlaforystu og aðstoðarmanna þeirra á frá því snemma í vor.“

Sagðar geðveikar og vanhæfar

Þær segja að efstu konur á lista flokksins hafi í sífellu verið lítilsvirtar og hunsaðar.

„Á trúnaðarfundum flokksins vorum við sagðar of vitlausar eða jafnvel geðveikar til að vera marktækar. Sumar okkar máttu sæta kynferðislegu áreiti og virkilega óviðeigandi framkomu til viðbótar við að vera ekki starfinu vaxnar og geðveikar.“

Þær lýsa því að oddviti flokksins á Akureyri, Brynjólfur Ingvarsson, hafi þann 10. september boðað þær á fund. Þar töldu þær að freista ætti þess að koma á ró og vinnufriði en þeim varð ekki að ósk sinni.

„Á fundinum mætti okkur mikil andúð og kuldi og yfirgaf varabæjarfulltrúi hann grátandi eftir tíu mínútur.“ 

„Samstarfið“ olli ómældri vanlíðan og kvíða

Þá segja þær Brynjólf hafa dregið fram bréf sem hann las upp og hótaði að birta. 

„Bréf sem var hlaðið rógburði rangfærslum og hótunum um að við misstum starfsleyfi okkar sem heilbrigðisstarfsmenn ef við létum ekki að stjórn. Alla daga síðan hafa þessar hótanir verið viðvarandi og umræddu hótunarbréfi dreift.“

Þær segja að þetta „samstarf“, orð sem þær setja innan gæsalappa, hafi verið einstaklega taugastrekkjandi og valdið þeim ómældri vanlíðan og kvíða.

Inga Sæland, formaður flokksins, segist harmi slegin vegna þeirra ásakana sem um ræðir.vísir/vilhelm

Brynjólfur oddviti, var nýkominn af hestbaki þegar fréttastofa náði stuttlega af honum tali. Hann hafði ekki séð yfirlýsinguna. Fréttamaður renndi yfir aðalatriði yfirlýsingarinnar og sagði Brynjólfur ekki alveg muna atburðarásina nákvæmlega svona. Hann væri upptekinn sem stæði en myndi ræða málið síðar í dag.

Inga harmi slegin og miður sín

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist harmi slegin vegna framkomunnar sem lýst er og um ræðir. Hún segist gersamlega miður sín og hafi nú formlega kallað til fundar aðalstjórnar Flokks fólksins. 

„Þar sem við munum taka á málinu fumlaust og af þeirri festu sem við erum þekkt fyrir,“ segir Inga. Hún hefur ekki sett það fyrir sig að víkja frammámönnum úr flokknum ef svo ber undir sem til dæmis sýndi sig í tengslum við Klausturmálið svokallað; þegar þingmönnunum Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni var gert að víkja úr flokknum.

Yfirlýsing þeirra er í heild sinni hér neðar.

Yfirlýsing Málfríðar, Tinnu og Hannesínu:

„Í kjölfar yfirlýsinga varaformanns Flokks fólksins í morgun höfum við sem erum þolendur alls þessa ofbeldis sem um er rætt, ákveðið að stíga fram og freista þess að útskýra líðan okkar og ömurlega reynslu af samskiptum við þessa ónefndu karlaforystu og aðstoðarmanna þeirra á frá því snemma í vor.

Eftir síðustu bæjarstjórnakosningar þar sem flokkurinn okkar vann stórsigur var mikill hugur í okkur öllum, jákvæðni og þakklæti til allra þeirra sem gáfu okkur sitt dýrmæta atkvæði og um leið tækifæri til að koma kærleiksríkum góðum málstað Flokks fólksins á framfæri. Við ætluðum að vinna af krafti við að byggja upp félagstarf flokksins okkar hér heima. Einnig ætluðum við að hafa samráð varðandi öll bæjarráðsmál með því að styðja og styrkja hvert annað. En í ljósi reynslunnar af samskiptum við karlkynsforystu flokksins og aðstoðarmanna hefur þessi góði vilji okkar frekar litast af draumsýn en veruleika.

Efstu konur á lista flokksins voru sífellt lítilsvirtar og hunsaðar. Á trúnaðarfundum flokksins vorum við sagðar of vitlausar eða jafnvel geðveikar til að vera marktækar. Sumar okkar máttu sæta kynferðislegu áreiti og virkilega óviðeigandi framkomu til viðbótar við að vera ekki starfinu vaxnar og geðveikar. Þann 10. sept. sl. boðaði oddviti flokksins til fundar á heimili sínu þar sem við töldum að ætti að freista þess að koma á ró og vinnufriði á meðal okkar. Á fundinum mætti okkur mikil andúð og kuldi og yfirgaf varabæjarfulltrúi hann grátandi eftir tíu mínútur. Oddvitinn dró þá fram bréf sem hann las upp og hótaði að birta. Bréf sem var hlaðið rógburði rangfærlsum og hótunum um að við misstum starfsleyfi okkar sem heilbrigðisstarfsmenn ef við létum ekki að stjórn. Alla daga síðan hafa þessar hótanir verið viðvarandi og umræddu hótunarbréfi dreift.

Eitt er víst að Þetta „samstarf“ hefur verið einstaklega taugatrekkjandi og valdið okkur öllum ómældri vanlíðan og kvíða.

Að lokum viljum við segja þetta:

Það er okkur sárara en tárum taki að þurfa að stíga fram og ræða opinberlega um þá erfiðleika og þau innanflokksátök sem við höfum verið að ganga í gegnum. Ástæðan að sjálfsögðu sú að við viljum ekki á neinum tímapunkti skaða flokkinn og allt það góða fólk innan Flokk fólksins sem er með hjartað á réttum stað. En nú þegar varaformaðurinn okkar hefur stígið fram og ætlar augljóslega að taka málið föstum tökum, finnst okkur ekkert annað koma til greina en að segja okkar sögu.

Virðingarfyllst,

Málfríður Þórðardóttir

Tinna Guðmundsdóttir

Hannesína Scheving Virgild Chester“

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×