Erlent

Lýsa yfir neyðar­á­standi vegna lömunar­veiki

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Yfirlýsingin er sú þriðja sem ríkisstjórinn Kathy Hochul gefur út á þessu ári, áður vegna kórónuveirunnar og síðar apabólunnar.
Yfirlýsingin er sú þriðja sem ríkisstjórinn Kathy Hochul gefur út á þessu ári, áður vegna kórónuveirunnar og síðar apabólunnar. Getty/Platt

Ríkisstjórinn í New York í Bandaríkjunum hefur lýst yfir neyðarástandi vegna hættu á útbreiðslu lömunarveiki, sem einnig er þekkt sem mænusótt, í fylkinu.

Heilbrigðisyfirvöld segja að úrgangssýni í New York og fjórum aðliggjandi sýslum hafi mælst jákvæð.

Þrátt fyrir að aðeins eitt tilfelli hafi greinst hafa yfirvöld lýst yfir neyðarástandi, enda hefur lömunarveiki ekki greinst í Bandaríkjunum í tæpan áratug. Árið 2013 greindist óbólusettur maður með lömunarveiki og lamaðist í kjölfarið.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum lýstu því yfir árið 1979 að þeim hafi tekist að útrýma lömunarveiki í landinu. Heilbrigðisyfirvöld í New York segja þó að bólusetningarhlutfall sé of lágt sums staðar í ríkinu sem skapi hættu. Stefnt verði að því að koma bólusetningarhlutfalli úr 79 prósentum upp í 90 prósent.

Í frétt Breska ríkisútvarpsins segir að engin lækning sé til við lömunarveiki. Hana sé hins vegar hægt að koma í veg fyrir með bólusetningu.

„Við getum ekki tekið sénsinn þegar það kemur að lömunarveiki. Ef þú eða barnið þitt eruð óbólusett er raunveruleg hætta til staðar. Fyrir hvert einasta tilfelli af lömunarveiki sem greinist geta miklu fleiri verið smitaðir,“ sagði Dr. Mary Bassett yfirmaður heilbrigðissviðs New-York-ríkis í yfirlýsingu.

Á vef Landlæknis er lömunarveiki lýst með þessum hætti:

„Mænusótt eða lömunarveiki er smitsjúkdómur af völdum veiru sem leggst getur á taugakerfi líkamans og valdið lömun sem leitt getur til dauða. Þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast af sjúkdómnum eru nýburar, ung börn og óbólusettir einstaklingar. Hættan á að lamast af völdum sjúkdómsins eykst með hækkuðum aldri.“


Tengdar fréttir

Fundu mænusótt í skólpi í New York

Yfirvöld í New York hafa greitt frá því að mænusótt (e. Polio) hafi fundist í skólpkerfi borgarinnar. Það þykir til marks um að veiran sé í meiri dreifingu meðal óbólusettra í borginni en áður var talið. Áður hafði mænusótt ekki greinst í Bandaríkjunum í meira en áratug.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×