Erlent

32 látnir eftir elds­voða á karó­kí­bar í Víet­nam

Atli Ísleifsson skrifar
Karókístaðinn er að finna í hverfinu Thuan An, norður af Ho Chi Minh.
Karókístaðinn er að finna í hverfinu Thuan An, norður af Ho Chi Minh. EPA

Alls eru 32 nú látnir eftir eldsvoða sem kom upp á karókíbar ekki langt frá víetnömsku borginni Ho Chi Minh á síðastliðið þriðjudagskvöld. Gríðarmikill eldur kom upp og varð mikill fjöldi gesta innlyksa og þá neyddust aðrir til að stökkva út um glugga á þriðju hæð byggingarinnar.

Erlendir fjölmiðlar segja að mikill reykur hafi myndast sem hafi komið í veg fyrir að fólk gæti flúið niður stigagang og sömuleiðis hindrað för út um neyðarútgang. Fjölmargir gestir og starfsmenn staðarins leituðu því út á svalir byggingarinnar og stukku þaðan niður.

Í fyrstu bárust upplýsingar frá yfirvöldum um að tólf væru látnir. Tala látinna var svo hækkuð í 23 og svo 32 í morgun.Í hópi hinna látnu eru sautján karlar og fimmtán konur.

Pham Minh Chinh, forsætisráðherra Víetnams, hefur farið fram á ítarlega rannsókn á eldsvoðanum og sömuleiðis að gerð verði öryggisúttekt á stöðum sem þessum til að draga úr líkum á að harmleikurinn geti efturtekið sig.

Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni, en karókístaðinn er að finna í hverfinu Thuan An, norður af Ho Chi Minh.

Í frétt Guardian segir að um sé að ræða mannskæðasta eldsvoðann í sögu landsins, en sá fyrri varð þegar þrettán manns fórust í eldsvoða í íbúðabyggingu í Ho Chi Minh árið 2018.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×