Eftir röð hneykslismála hrökklaðist Boris Johnson loks formlega frá völdum þegar ljóst var að loknu langdreginu leiðtogakjöri að Liz Truss utanríkisráðherra tæki við af honum. Að venju bar Johnson sig vel þegar hann kvaddi forsætisráðherrabústaðinn í Downingstræti 10 í morgun og sagði stjórn hans hafa áorkað miklu.

„Og ég mun styðja Liz Truss og nýju ríkisstjórnina alla leið. Þakka ykkur kærlega fyrir. Þakka ykkur fyrir og verið þið sæl," sagði þessi einn umdeildasti forsætisráðherra Bretlands sem helst verður minnst fyrir að leiða Breta út úr Evrópusambandinu.
Alla jafna hefði fráfarandi forsætisráðherra tekið skottúr í embættisbifreið sinni frá Downingstræti upp í Buckinghamhöll til fundar við Elísabetu II drottingu til að segja af sér. Á þessum árstíma dvelur drottningin hins vegar að venju í Balmoral kastala í Skotlandi og hin aldraða drottning treysti sér ekki til Lundúna í tilefni valdaskiptanna.
Því varð Johnson að bregða undir sig betri fætinum og fljúga til Aberdeen til að ná fundum drottningar. Eftir að hann hafði tilkynnt afsögn sína gekk Mary Elizabeth Truss á fund nöfnu sinnar, fimmtándi forsætisráðherrann sem Elísabet II bauð að mynda ríkisstjórn í sínu nafni.

Þegar formlegheitunum var lokið hélt þriðja konan til að gegna embætti forsætisráðherra í sögu Bretlands til Downingstrætis í Lundúnum. Hefð er fyrir því að nýr forsætisráðherra reifi stuttlega stefnu sín við dyr bústaðarins.
Það helli ringdi hins vegar á meðan hún nálgaðist miðborg Lundúna og ræðupúlt hennar var flutt í skjól. Rétt áður en hún kom stytti aftur á móti upp og ræðupúltinu var snarlega komið á sinn stað á síðustu stundu.

„Við þurfum að leggja vegi, byggja heimili og leggja breiðband hraðar. Við þurfum meiri fjárfestingar og góð störf í öllum bæjum og borgum úti um allt land. Við verðum að létta byrðum af fjölskyldunum og hjálpa fólki að komast áfram í lífinu," sagði Truss.
Og hét því að grípa strax í næstu viku til aðgerða til að lækka orkureikmninga almennings sem hefðu hækkað undanfarið vegna innrásar Putins í Úkraínu. Bretar stæðu nú í miklum andbyr vegna þessarar ömurlegu innrásar. Þrennt væri í forgangi hjá henni sem forsætisráðherra.
„Í fyrsta lagi mun ég sjá til þess að koma atvinnulífunu af stað aftur. Ég er með djarfar áætlanir til að efla efnahagslífið með skattalækkunum og endurbótum," sagði Truss. Hún muni auk orkumálanna einnig einbeita sér að því að byggja upp heilbrigðiskerfið þannig að allir komist að hjá lækni sem þurfi þess.