„Ég var bara að googla hana. Þurfti að vita meira um nýja forsætisráðherrann?“ segir Védís hlæjandi í samtali við Vísi.
Védís var að kynna sér Liz Truss nánar en hún er nýr formaður Íhaldsflokksins og næsti forsætisráðherra Bretlands. Og rakst þá á mynd sem Liz Truss birti af sér og spúsa sínum Hugh O'Leary á Instagram-síðu sinni á Valentínusardaginn 2019.
Védísi kannaðist við myndina, fór að fletta í sínum gögnum og jú, það passaði: Það er til mynd af henni og Breka Logasyni eiginmanni hennar sem er nánast eins. Breki og Hugh eru í samskonar klæðnaði, dragfínir í smóking, sem er klassískur klæðnaður karlmanna en það sem meira er: Liz Truss er í nákvæmlega samskonar kjól og Védís. Hjónin stilltu sér í myndatöku tíu árum fyrr, eða 2009 þegar þau Védís og Breki voru stödd í brúðkaupi vinafólks. Það er því ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en Liz Truss hafi stolið stílnum, stíl Védísar.
„Þetta er Karen Millen-kjóll sem er breskt „brand“. Þetta var rosalega heitt á þessum tíma, þetta var dýr kjóll þá,“ grínar Védís sem finnst þetta fyrst og síðast yfirmáta fyndið. Hún segist ekki eiga kjólinn lengur, hann rann sitt skeið.
Védís birtir myndirnar á Facebook-síðu sinni við miklar undirtektir. Og spyr í galsa, og vitnar í þekkta efnisþætti í breskum miðlum, Steldu stílnum: „Who wore it better?“
Ljóst er að um er að ræða mikinn eftirlætiskjól verðandi forsætisráðherra Breta.