Innlent

Eim­skip fær ekki að á­frýja til Hæsta­réttar

Árni Sæberg og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Hæstiréttur mun ekki taka mál Eimskipafélagsins fyrir.
Hæstiréttur mun ekki taka mál Eimskipafélagsins fyrir. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur hafnað áfrýjunarbeiðni Eimskipafélags Íslands í CFC-málinu svokallaða. Félagið tilkynnti í gær að málinu væri þar með lokið og að niðurstaðan hefði engin áhrif til gjalda eða greiðslu.

Málið snerist um endurákvörðun yfirskattanefndar og ríkisskattstjóra á gjöldum Eimskips fyrir gjaldárin 2014 og 2015 á grundvelli reglna um svokölluð CFC-félög. Reglurnar kveða á um að innlendum eigendum erlendra félaga, sjóða eða stofnana sem staðsett eru á lágskattasvæðum, CFC-félaga, beri að greiða skatt vegna hagnaðar sem myndast hjá lögaðilanum og ekki hefur verið úthlutað til eigenda CFC-félagsins.

Gjöld Eimskips voru endurákveðin vegna hagnaðar félaga í lágskattaríkinu Antígva og Barbúda sem eru í eigu P/f Faroe ship, sem er alfarið í eigu Eimskipafélagsins. P/f Faroe ship stunduðu þurrleigu á skipum í eyríkjunum. Deilt var um hvort Eimskip hafi átt að skila CFC-skýrslu vegna starfsemi P/f Faroe í Karíbahafinu og telja hagnaðinn til tekna í skattskilum sínum. 

Tekjur P/f Faroe hækkuðu um rúman milljarð árið 2014 og um rúmar 387 milljónir króna árið 2015. Fram kemur í dómi Landsréttar að stofn til tekjuskatts hafi þar af leiðandi orðið 97 milljónir í stað yfirfæranlegs 159 milljóna króna taps og seinna árið 285 milljóna yfirfæranlegt tap. Krafðist Skatturinn þess að Eimskip greiddi rúmar 24 milljónir króna í skatt auk vaxta. 

Eimskip byggði aðalkröfu sína á því að hagnaður P/f Faroe ship í Antígva og Barbúda ætti ekki að teljast Eimskipi til hagnaðar þar sem P/f Ship sætti eðlilegri skattlagningu í Færeyjum. Eignarhald dótturfélagsins á skipum í Antígva og Barbúda fæli ekki  í sér skattasniðgöngu, hvorki á Íslandi né annars staðar. Ekkert umræddra skipa hafi veirð í eigu íslensks félags eða verið skráð á íslenska skipaskrá. 

Héraðsdómur dæmdi íslenska ríkinu í vil og Landsréttur staðfesti þann dóm í júní síðastliðnum. Eimskip skrifaði í fréttatilkynningu til Kauphallarinnar í gær að málinu sé lokið að niðurstaðan hefði engin áhrif til gjalda eða greiðslu og málskostnaður fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið látinn niður falla. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.