Innlent

Ellen nýr fram­kvæmda­stjóri Barna­heilla

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ellen Calmon er nýr framkvæmdastjóri Barnaheilla.
Ellen Calmon er nýr framkvæmdastjóri Barnaheilla. Aðsend

Ellen Calmon, fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Ílandi. Ellen tekur við af Ernu Reynisdóttur sem hefur stýrt samtökunum síðustu tíu ár.

Ellen er með B.Ed-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og diplómu í opinberri stjórnsýslu. Hún hefur mikla reynslu af stjórnun hagsmunasamtaka, hún gegndi stöðu framkvæmdastýru ADHD-samtakanna frá 2011 til 2013 og aftur árið 2018. Á árunum 2013 til 2017 var hún formaður Öryrkjabandalags Íslands og 2018 til 2020 stýrði hún innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna og verkefninu Opinskátt um ofbeldi í skóla- og frístundastarfi hjá Reykjavíkurborg.

Ellen hefur einnig töluverða reynslu af alþjóðlegu samstarfi en hún hefur setið í stjórnum European Disabilitiy Forum og European Womens Lobby.

„Ég fagna því innilega að við höfum fengið eins reynda og hæfa manneskju í starf framkvæmdastjóra og Ellen er. Hún hefur áður stýrt hagsmunasamtökum með glæsibrag, hefur brennandi áhuga á málaflokknum sem skín í gegnum hennar fyrri störf og hún hefur mikinn drifkraft,“ segir Harpa Rut Hilmarsdóttir, stjórnarformaður Barnaheilla.

Ellen segist vera þakklát og spennt fyrir því að fá að takast við þau mikilvægu verkefni sem framundan eru hjá Barnaheillum.

„Öll börn þessa heims eiga rétt á að lifa, þroskast og dafna á eigin forsendum og að hugað sé að fjölbreytileika þeirra og styrk. Ég tel vernd og velferð barna eitt mikilvægasta grunnverkefni allra samfélaga sem er einnig aðal tilgangur Barnaheilla,“ segir Ellen.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×