Fótbolti

Áhorfandi ruddist inn á og sparkaði í rassinn á leikmanni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Áhorfandinn sparkar í sitjandann á Salih Ucan.
Áhorfandinn sparkar í sitjandann á Salih Ucan.

Upp úr sauð í leik Besiktas og Ankaragucu í tyrknesku úrvalsdeildinni í gær. Áhorfandi ruddist inn á völlinn og sparkaði í leikmann Besiktas.

Atvikið átti sér þegar leikmenn liðanna söfnuðust saman í miðjuhringnum til að rífast. Dómari leiksins reyndi að skakka leikinn en þá stökk áhorfandi inn í þvöguna og sparkaði í rassinn á Salih Ucan, miðjumann Besiktas.

Josef de Zouza, leikmaður Besiktas, tók að sér hlutverk gæslumanns og ýtti áhorfandanum í grasið. Hann var svo færður af vellinum eftir að hafa reynt að flýja af vettvangi.

De Zouza fékk enga miskunn hjá dómaranum þrátt fyrir að hafa reynt að stöðva óboðna gestinn og var sendur í sturtu ásamt Marlon Xavier, leikmanni Ankaragucu.

Besiktas vann leikinn, 2-3. Dele Alli skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið í leiknum en Besiktas fékk hann á láni frá Everton í lok síðasta mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×