Innlent

Stjórnvöld reiðubúin í viðræður um kjarasamninga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir segir ekki munu standa á stjórnvöldum.
Katrín Jakobsdóttir segir ekki munu standa á stjórnvöldum. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stjórnvöld hafa unnið að undirbúningsvinnu fyrir komandi kjarasamningalotu á fundum þjóðhagsráðs, sem hafi verið töluvert margir á þessu ári og því síðasta.

Hún segir ekki standa á ríkisvaldinu að hefja samræður fyrir kjarasamningsviðræður ef opinberu félögin séu einhuga um þá ósk.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun.

Friðrik Jónsson, formaður BHM, hefur fengið umboð formanna aðildarfélaga bandalagsins til að hefja undirbúningsviðræður.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaganna, tekur í sama streng og Katrín og segist reiðubúin í viðræður.

„Við erum í stöðugu samtali við okkar viðsemjendur þannig að auðvitað ræðum við við þá þegar þeir óska eftir því að tala við okkur.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir stjórnvöld munu taka því fagnandi ef þau geta átt aðkomu að því að tryggja að samningar renni ekki út og menn verði samningslausir í langan tíma.

„Ég tek eftir því að það hefur verið gefið umboð til viðræðna og við tökum því fagnandi ef við getum hjálpað til við að tryggja að samningar verði ekki látnir renna út og langur tími líði þar til þeir verða endurnýjaðir,“ segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×