Innlent

„Sumt fólk dæmir fatlað fólk svo mikið því það heldur að það geti ekki gert neitt eins vel og þau“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Lára Þorsteinsdóttir ræddi málefni fatlaðra í þættinum Spjallið með Góðvild.
Lára Þorsteinsdóttir ræddi málefni fatlaðra í þættinum Spjallið með Góðvild. Mission framleiðsla

Einhverf kona sem fékk á dögunum langþráð samþykki frá Háskóla Íslands til að sækja nám í sagnfræði segir að samfélagið þurfi að treysta fólki með fötlun. 

Lára Þorsteinsdóttir vakti athygli á takmörkuðu framboði náms fyrir fólk með fötlun hjá Háskóla Íslands í Spjallinu með Góðvild í fyrra. Þar sagði hún að það væri ósanngjarnt að henni og öðrum fötluðum stæði bara starfstengt diplómunám til boða.

„Fyrir bókaorm eins og mig sem hefur brennandi áhuga á sagnfræði og fékk tíu í sagnfræði í menntaskóla, þá hefði ég til dæmis svo gjarnan viljað sækja líka tíma í sagnfræðideildinni,“ sagði Lára í Spjalli með Góðvild í fyrra.

Þessi draumur Láru rættist á dögunum þegar hún fékk langþráð símtal frá háskólanum þar sem henni var tilkynnt að hún gæti loksins hafið nám í sagnfræði.

„Sá sem hringdi sagði mér að það væri búið að fá allt í gegn og að ég kæmist í einn áfanga þar.“

Fyrsti skóladagurinn var á mánudaginn og segir Lára spennandi að vera loksins byrjuð í háskóla.

„Ég er að læra hvernig sagnfræðin varð til og þetta er undirbúningskúrs sem ég er í.“

Hún segir mikilvægt að hrósa skólanum fyrir að bjóða henni loksins skólavist og vonast til að fleiri fái að stunda draumanámið. Lára segir að samfélagið þurfi að treysta fólki með fötlun enda hafi sá hópur margt til brunns að bera.

„Sumt fólk dæmir fatlað fólk svo mikið því það heldur að það geti ekki gert neitt eins vel og þau. Fólk ætti aldrei að dæma fatlað fólk út af því að það er öðruvísi.“

Lára vinnur á Te og kaffi meðfram skóla en þegar hún hefur lokið háskólanámi langar hana að gera ýmislegt.

„Mig langar að vinna með fötluðum börnum eða dýrum eða auðvitað líka sagnfræði.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.