Innlent

Til skoðunar að auka fram­boð náms fyrir fatlaða í HÍ

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Vísir/Egill

Rektor Háskóla Íslands segir til skoðunar að auka námsframboð í skólanum fyrir fólk með fötlun. Einhverf kona segir ósanngjarnt að henni standi bara starfstengt diplómanám til boða.

Lára Þorsteinsdóttir vakti máls á þessu í Spjalli með Góðvild. Hún hefur sótt um starfstengt diplómanám í Háskóla Íslands en finnst ósanngjarnt að þetta sé eina námið sem fötluðum stendur til boða í skólanum.

„Fyrir bókaorm eins og mig sem hefur brennandi áhuga á sagnfræði og fékk tíu í sagnfræði í menntaskóla, þá hefði ég til dæmis svo gjarnan viljað sækja líka tíma í sagnfræðideildinni,“ sagði Lára Þorsteinsdóttir í Spjall með Góðvild á dögunum.

Rektor HÍ segir málið til skoðunar.

„Við erum með starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun á Menntavísindasviði og það hefur líka teygt sig aðeins inn á Hugvísindasvið. En við erum að skoða það núna hvernig við getum komið til móts við þennan hóp og tengt þetta fleiri fræðasviðum,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í samtali við fréttastofu.

Hann segir fjármagn einn af þröskuldunum sem þurfi að yfirstíga. Einnig þurfi að útfæra hvernig sé hægt að koma til móts við þennan hóp nemenda.

„Það þarf hreinlega bara að ræða málið við yfirvöld frekar, háskólinn hefur tekið þetta upp sjálfur og þetta kemur frá Menntavísindasviði en við viljum hreinlega bara skoða þetta betur og koma til móts eins og við getum.“

Tekið er inn í námið annað hvert ár en Jón Atli segir að það gæti tekið upp undir ár að útfæra frekara nám fyrir þennan hóp.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.