Innlent

Lára fékk langþráð já frá Háskóla Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lára Þorsteinsdóttir ræddi málefni fatlaðra í þættinum Spjallið með Góðvild.
Lára Þorsteinsdóttir ræddi málefni fatlaðra í þættinum Spjallið með Góðvild. Mission framleiðsla

Lára Þorsteinsdóttir hefur fengið grænt ljós frá Háskóla Íslands til að sækja námskeiðið SAG101G - Sagnfræðileg vinnubrögð. Lára hefur vakið athygli á takmörkuðu framboði náms í boði hjá skólanum fyrir fólk með fötlun.

Lára, sem er 23 ára kona með einhverfu, minnti í Spjallinu með Góðvild á Vísi í fyrra á rétt fatlaðra til menntunar eins og aðrir. Í framhaldi af viðtalinu við Láru sagði rektor HÍ til skoðunar að auka framboð náms fyrir fatlaða.

„Við erum að skoða það núna hvernig við getum komið til móts við þennan hóp og tengt þetta fleiri fræðasviðum,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við fréttastofu í júní í fyrra.

Rúmlega ári síðar fagnar Lára, og foreldrar hennar um leið þau Þorsteinn J. Vilhjálmsson og María Ellingsen.

„Háskólinn sagði já! Lára Þorsteinsdóttir fær að byrja í dag í námskeiðinu SAG101G. SAGNFRÆÐILEG VINNUBRÖGÐ við Háskóla Íslands. Stór stund, fyrsti tíminn í sagnfræði við Háskóla Íslands, og Lára er glöð og þakklát,“ segir Þorsteinn í færslu á Facebook.

„Áfram Lára! Opna dyr- stækka heiminn!“ segir María Ellingsen.

Þar deilir hann skilaboðum frá Láru á þessum tímamótum:

„Það er ástæða til að þakka öllum þeim sem lögðu þessu baráttumáli mínu lið og opnuðu leiðina fyrir mér inn í sagnfræðinám við Háskóla Íslands: Sólveig Ólafsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Guðrún Valgerður Stefánsdóttir, Ágústa Björnsdóttir, Jón Atli Benediktsson, og svo baráttukonurnar og fyrirmyndir mínar, Embla Guðrúnar Ágúsdóttir og Freyja Haraldsdóttir. Pabbi og mamma fá líka þakkir en þau eru vinsamlegast beðin að hætta að skipta sér svona mikið af mínum málum,“ segir Lára.

Lára sagði í viðtalinu í Spjallinu með góðvild hve áhugasöm hún væri um sagnfræði.

„Fyrir bókaorm eins og mig sem hefur brennandi áhuga á sagnfræði og fékk tíu í sagnfræði í menntaskóla, þá hefði ég til dæmis svo gjarnan viljað sækja líka tíma í sagnfræðideildinni.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×