Fótbolti

Hrókeringar í fremstu línu Ís­lendinga­liðsins í Kaup­manna­höfn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Peb Biel er á leið til Olympiacos í Grikklandi.
Peb Biel er á leið til Olympiacos í Grikklandi. Lars Ronbog/Getty Images

Það stefnir í miklar breytingar á framlínu Danmerkurmeistara FC Kaupmannahafnar áður en félagaskiptaglugginn í Evrópu lokar á miðnætti. Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson ættu að njóta góðs af breytingunum.

Hinn 25 ára gamli Pep Biel hefur verið aðalframherji FC Kaupmannahafnar undanfarið en hann gekk í raðir félagsins árið 2019. Biel hefur byrjað tímabilið af krafti og skorað sex mörk ásamt því að leggja upp þrjú í aðeins sjö leikjum í deild.

Það virðist þó sem þjálfarateymi FCK vilji breyta til en Biel er á leið til Grikklands þar sem hann mun semja við Olympiacos.

Í hans stað snýr Andreas Cornelius aftur heim til Kaupmannahafnar. Hann er 29 ára gamall og hóf atvinnumannaferil sinn með FCK áður en hann fór til Cardiff City á Englandi. Þar stoppaði hann stutt og kom svo aftur til Kaupmannahafnar áður en hann fór til Ítalíu.

Undanfarið tímabil hefur Cornelius leikið með Trabzonspor í Tyrklandi en FCK sló liðið út í leið sinni í riðlakeppni Meistaradeildar Evópu.

Cornelius er mun hefðbundnari framherji en Biel. Á meðan Biel býður sig mikið í svæði og vill fá boltann þá er danski landsliðsmaðurinn 1.95 metrar á hæð og spilar eftir því. 

Það ætti því að henta bæði Hákoni Arnari og Ísaki Bergmanni mun betur að spila með Cornelius þar sem Biel var oftar en ekki í því svæði þar sem Íslendingunum líður best.

FC Kaupmannahöfn hefur farið illa af stað og er í 8. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með aðeins níu stig eftir sjö umferðir. Það er nægur tími til að vinna sig upp töfluna en liðið þarf að grafa djúpt ef það ætlar að eiga möguleika í Meistaradeild Evrópu. Þar bíða Manchester City, Borussia Dortmund og Sevilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×