Innlent

Ó­vandað, ó­gagn­sætt og metnaðar­laust ráðningar­ferli

Bjarki Sigurðsson skrifar
Harpa Þórsdóttir, nýr þjóðminjavörður og Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra þegar gengið var frá ráðningu Hörpu.
Harpa Þórsdóttir, nýr þjóðminjavörður og Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra þegar gengið var frá ráðningu Hörpu. Stjórnarráðið

Félag fornleifafræðinga lýsir yfir miklum vonbrigðum á því hvernig staðið var að skipun nýs þjóðminjavarðar í bréfi sem félagið sendi menningar- og viðskiptaráðherra í dag. Ráðningarferlið hafi verið óvandað, ógagnsætt og metnaðarlaust.

Í gær var greint frá því að Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, hafi verið skipuð nýr þjóðminjavörður. Hún tekur við stöðunni af Margréti Hallgrímsdóttur sem var nýlega skipuð skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.

Félag fornleifafræðinga sendi bréf á Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, fyrr í dag þar sem félagið lýsti yfir vonbrigðum sínum með ráðningarferlið. Félagið telur ferlið hafa verið óvandað, ógagnsætt og metnaðarlaust.

Gagnrýni félagsins nær þó ekki til Hörpu sem persónu heldur sérstaklega til þess að staðan hafi ekki verið auglýst til umsóknar.

„Þjóðminjasafn Íslands er eitt höfuðsafna þjóðarinnar og miðstöð íslenskrar menningar. Það á að gegna lykilhlutverki í metnaðarfullu safna- og rannsóknarstarfi en í ljósi þeirra starfshátta sem hafðir voru við skiptun nýs þjóðminjavarðar má efast um metnað núverandi ríkisstjórnar fyrir hönd þess,“ segir í bréfi félagsins.

Þá þykir stjórn félagsins sárt að ekki var betur staðið að ráðningu þjóðminjavarðar og að íslensk menning eigi betra skilið en að vera gerð að „embættismannaleik“.

Í svari menningar- og viðskiptaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu segir að þrátt fyrri að almennt sé reglan sú að öll störf á vegum hins opinbera séu auglýst er ráðherra heimilt að flytja embættismann til í starfi, svo lengi sem bæði embættin heyri undir ráðuneytið. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×