Innlent

Kjötsúpuhátíð á Hvolsvelli um helgina

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mikil stemming er á Hvolsvelli á kjötsúpuhátíðinni 2022
Mikil stemming er á Hvolsvelli á kjötsúpuhátíðinni 2022 Aðsend

Þeir, sem elska íslenska kjötsúpu með miklu kjöti í ættu að drífa sig á Hvolsvöll því þar fer fram Kjötsúpuhátíð alla helgina. Kjötsúpurölt var í þorpinu í gærkvöldi og í dag býður Sláturfélag Suðurlands heimamönnum og gestum þeirra upp á kjötsúpu eins og hver vill.

Kjötsúpuhátíðin á Hvolsvelli er bæjarhátíð íbúa þar og í sveitunum í kring en hátíðin hefur ekki verið haldin síðustu tvö ár vegna Covid. Nú er öllu tjaldað til, byrjað var á fimmtudaginn og hátíðinni lýkur seinnipartinn á morgun.

Árný Lára Karvelsdóttir er markað- og kyningarfulltrúi Rangárþings eystra.

„Í gærkvöldi vorum við með hið margrómaða súpurölt þar sem að íbúar og fyrirtæki buðu heim. Það var bara fullt af fólki á ferð um þorpið og gríðarlega góðar súpur, sem hægt var að smakka,“ segir Árný.

Súpurölt fór fram í gærkvöldi, sem tókst einstaklega vel.Aðsend

Árný Lára segir að dagskráin í dag verði glæsileg og fyrir alla fjölskylduna.

„Já, við ætlum að vera með íþróttaálfinn og BMX brós og svo ætlum við vera með vatnbolta, sem er fótbolti með slökkviliðsslöngum eða brunaslöngum. Svo er Suðurlands Jazz hjá okkur og stórtónleikar í kvöld með nokkur vel völdum tónlistarmönnum, þar á meðal honum Stefáni Hilmarssyni. Og svo eru heimakonur, Valborg Ólafs, Sæbjörg Eva og Maríanna Másdóttir, það má eiginlega ekki missa af þessu. Svo erum við með brennu og flugeldasýningu.“

Og núna eftir hádegi ætlar Sláturfélag Suðurlands að bjóða öllum upp á ókeypis kjötsúpu á miðbæjartúninu á Hvolsvelli.

En verður örugglega nóg kjöt í súpunni?

„100 prósent, sunnlenskt gæðakjöt,“ segir Árný hlægjandi.

Þorpið er mjög vel skreytt í tilefni af hátíðinni.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×