Innlent

Tekur gagn­rýni Reykja­nes­bæjar til sín og segir úr­bætur á loka­metrunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félagsmálaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félagsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Félagsmálaráðherra segist taka til sín gagnrýni meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um stöðu mála í móttöku flóttafólks og fólks í leit að vernd. Vinna við að fjölga sveitarfélögum sem taki á móti fólki sé á lokametrunum. Það muni létta mjög undir með þeim fáu sveitarfélögum sem hingað til hafi gert það. 

Í vikunni sendi meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá sér tilkynningu þar sem hann lýsti óánægju með að ríkið þrýsti á sveitarfélagið um að taka við fleira flóttafólki og fólki í leit að vernd, án þess að fjármagn til að sinna þjónustunni fylgdi með. 

Eins kallaði meirihlutinn eftir því að fleiri sveitarfélög yrðu fengin að borðinu. Þrjú sveitarfélög eru aðilar að samningu um móttöku fólks í leit að alþjóðlegri vernd. Auk þess verkefnis hefur Reykjanesbær ásamt Akureyri, Árborg, Hafnarfirði og Reykjavík tekið við stórum hóp flóttafólks í gegnum samræmda móttöku flóttafólks.

Félagsmálaráðherra segir samfélagið standa frammi fyrir stórum áskorunum í málaflokkinum, en unnið sé að því að fá fleiri sveitarfélög að borðinu.

„Það er algjörlega á lokametrunum, sem mun bæði efla móttökuna í þeim sveitarfélögum sem þegar eru samstarfsaðilar ríkisins í að taka á móti fólki, en líka til þess að fjölga sveitarfélögum sem ættu að geta létt á þeim sveitarfélögum sem hingað til hafa verið í þessari þjónustu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Mörg sveitarfélög sem ekki hafi verið aðili að móttöku hafi sýnt vilja til að vera með.

„Ég held að það séu um þrjátíu sveitarfélög sem sérstaklega hafi óskað eftir því að vera með.“

Gagnrýni meirihlutans í Reykjanesbæ sneri einnig að því að ríkið hefði tekið á leigu húsnæði á Ásbrú, fyrir yfir fjögur hundruð manns, án þess að hafa samráð við sveitarfélagið. Guðmundur Ingi segist skilja þá gagnrýni.

„Ég tel að það sé mikilvægt að við getum dreift þessu jafnar á milli sveitarfélaganna. Þannig að ég tek þann punkt frá bæjarstjórn Reykjanesbæjar til mín og við munum að sjálfsögðu skoða það núna í framhaldinu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×