Erlent

Telja sig hafa fundið móður barnanna í ferða­töskunum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lögreglan í Auckland fer með rannsókn málsins.
Lögreglan í Auckland fer með rannsókn málsins. AP/Dean Purcell

Lögreglan í Seúl í Suður-Kóreu telur sig hafa fundið móður barnanna sem fundust látin í ferðatöskum í borginni Auckland í Nýja-Sjálandi í síðustu viku. Við krufningu kom í ljós að börnin voru á aldursbilinu fimm til tíu ára.

Greint var frá því í síðustu viku að tvö lík hafi fundist í ferðatöskum sem fjölskylda keypti á uppboði í Nýja-Sjálandi. Töskurnar höfðu þá verið í geymslurými í einhvern tíma en leigjandinn var hættur að borga leiguna af rýminu. Því var allt innihald þess sett á uppboð.

Fjölskyldan uppgötvaði að líkin væru í töskunum þegar heim var komið og var lögregla kölluð á staðinn um leið. Talið er að börnin hafi verið myrt en fjölskyldan sem keypti töskurnar er ekki með stöðu grunaðra í málinu.

Nú hefur lögreglan í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu, sagst hafa fundið móður barnanna. Móðirin er nýsjálensk en af kóreskum uppruna. Samkvæmt The Guardian kom konan til Suður-Kóreu árið 2018 og hefur ekki yfirgefið landið síðan þá.

Talið er að töskurnar hafi verið í geymslunni í nokkur ár og því telur lögreglan í Auckland að konan hafi farið úr landi eftir að töskunum var komið fyrir í geymslunni.

Konan hefur ekki verið handtekin og verður ekki handtekin fyrr en lögreglan í Auckland óskar eftir því.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×