Innlent

Mikill kraftur í ferðaþjónustu á Borgarfirði eystri

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mikill kraftur er í ferðaþjónustu á staðnum og hefur sumarið verið einstaklega gott hvað varðar heimsóknir ferðamanna á staðinn, enda fjörðurinn með þeim fallegri á Íslandi.
Mikill kraftur er í ferðaþjónustu á staðnum og hefur sumarið verið einstaklega gott hvað varðar heimsóknir ferðamanna á staðinn, enda fjörðurinn með þeim fallegri á Íslandi. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ferðaþjónusta á Borgarfirði eystri hefur sjaldan eða aldrei gengið eins vel og í sumar. Hjón á staðnum eru að stækka hótelið hjá sér, auk þess að setja upp glæsilegt útisvæði með pottum og Spai . Þau hafa einnig opnað brugghús á staðnum.

Það eru nokkur ár síðan að Auður Vala Gunnarsdóttir og Helgi Sigurðsson keyptu gamla frystihúsið á staðnum og breyttu því í glæsilegt gistiheimili, sem heitir Blábjörg og þar er líka veitingastaður.

„Já, þetta hús er náttúrulega með mikla sögu hérna á Borgarfirði og með eina lengstu samfelldu kaupfélagssögu á Íslandi. Hér er nánast fullt á hverju kvöldi, fólk kemur og fær sér einn öllara, situr og spjallar og fer svo heim,“ segir Auður Vala.

Auður Vala og Helgi eru að gera ótrúlega flotta hluti á staðnum. Þau eru til dæmis að byggja núna húsnæði með níu hótel herbergjum, auk þess sem þau eru með gistihús og íbúðir af mismunandi stærðum til leigu hjá sér.

„Við erum bara mjög glöð með þetta. Það er líka gaman þegar vel gengur og móttökurnar góðar og eins og ég segi, að gefa þessum húsum nýtt líf og nýtt hlutverk því að eins og við vitum, kaupfélög og frystihús voru hjarta hvers bæjarfélags hérna áður fyrr.“

Blábjörg, gistiheimili og veitingastaður hjá Auði Völu og Helga, sem nýtur mikilla vinsælda.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Auður og Helgi opnuðu í vor nýja bruggstofu og aðstöðu þar sem þau framleiða sinn eigin bjór og svo eru þau að eima bæði landa og gin.

En Borgarfjörður eystri, hvers konar samfélag er það?

„Bara dásamlegt samfélag, það er ofsalega gott að vera hérna. Það er eitthvað við þennan fjörð og þú færð mikla orku að vera hér. Við erum bara mjög stolt af því að vera að byggja þetta upp hér á Borgarfirði. Ég myndi hvergi vilja reka ferðaþjónustu annars staðar en hér á Borgarfirði,“ segir Auður Vala.

Auður Vala og Helgi brugga sinn bjór sjálf og svo eru þau að eima bæði landa og gin.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×