Fótbolti

Guðlaugur Victor bar fyrirliðabandið í stórtapi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðlaugur Victor í baráttunni við Danann Mikael Uhre sem braut ísinn fyrir gestina í nótt.
Guðlaugur Victor í baráttunni við Danann Mikael Uhre sem braut ísinn fyrir gestina í nótt. Scott Taetsch/Getty Images

Guðlaugur Victor Pálsson var fyrirliði D.C. United sem tapaði 6-0 á heimavelli fyrir Philadelphia Union í bandarísku MLS-deildinni í nótt. Wayne Rooney stillti honum upp sem miðverði í leiknum.

Daninn Mikael Uhre kom Philadelphia á bragðið á 37. mínútu leiksins og þá tvöfaldaði Daniel Gazdag forystu liðsins úr vítaspyrnu á fjórðu mínútu uppbótartíma í fyrri hálfleik.

Heimamenn byrjuðu þá síðari hálfleikinn eins illa og þeir enduðu þann fyrri þar sem það tók Philadelphiu aðeins tvær mínútur að skora. Þar var að verki argentínski framherjinn Julian Carranza. Sá var rétt að byrja en hann bætti öðru marki sínu við á 70. mínútu og því þriðja á 74. mínútu.

Cory Burke skoraði þá sjötta mark Union á 80. mínútu til að fullkomna niðurlægingu heimamanna.

Þar við sat og 6-0 úrslitin í leik þar sem óhætt er að segja að leikmenn liðsins úr höfuðborginni hafi mætt ofjörlum sínum. Philadelphia er á toppi Austurdeildarinnar með 51 stig, fimm á undan Montreal sem er í öðru sæti.

Wayne Rooney, þjálfari DC United, á verk að vinna, rétt eins og Guðlaugur Victor, en liðið er sem fyrr á botninum austan megin með 22 stig, sjö á eftir Atlanta United sem er þar fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×