Fótbolti

„Hef ekki séð neinn þjálfara kynntan og ekki séð hópinn þeirra þannig það er smá óvissa“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, valdi hópinn fyrir seinustu tvo leiki liðsins í undankeppni HM í dag.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, valdi hópinn fyrir seinustu tvo leiki liðsins í undankeppni HM í dag. Stöð 2/Vísir

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, valdi í dag hópinn sinn fyrir tvo síðustu leiki íslenska liðsins í riðli sínum í undankeppni HM en þeir fara fram í byrjun næsta mánaðar. Fyrri leikur liðsins er heimaleikur gegn Hvít-Rússum þann 2. september og Þorsteinn segir þann leik gríðarlega mikilvægan.

„Hann er mjög mikilvægur og hann skiptir máli bara upp á það að vera í kjörstöðu þegar við mætum Hollandi,“ sagði Þorsteinn í samtali við Stöð 2 í dag, en sigur gegn Hvíta-Rússlandi kemur íslenska liðinu í toppsæti riðilsins fyrir lokaleikinn gegn Hollendingum. Íslenska liðinu myndi því duga jafntefli gegn Hollendingum til að tryggja sér sæti beint inn á HM.

„Ef við náum ekki í úrslit þar þá skiptir það líka máli varðandi niðurstöðu okkar í keppni við liðin sem lenda í öðru sæti í öllum hinum riðlunum.“

Íslensku stelpurnar mæta svo hollenska liðinu þann 6. september í Hollandi og Þorsteinn efast ekki um að það verði hörkuleikur, en Hollendingar mæta þar til leiks með nýjan þjálfara.

„Holland er með gott lið og alveg tvímælalaust verður þetta hörkuleikur. Það er auðvitað smá óvissa með þann leik. Ég hef ekki séð neinn þjálfara tilkynntan og ekki séð hópinn þeirra þannig að það er smá óvissa. Jákvæði hluturinn er að þær spila æfingaleik á föstudeginum, sama degi og við spilum við Hvít-Rússa þannig að þá ættum við að sjá eitthvað hvað þær eru að fara að gera og hvort það verði miklar breytingar - taktískt eða í leikmannamálum,“ sagði Þorsteinn að lokum.

Klippa: Hópurinn fyrir undankeppni HM kynntur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×