Lífið

Sættir sig ekki við „hótanir fjölmiðla“

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Hannes Steindórsson fasteignasali opnar sig til þess að koma í veg fyrir að ósannindi komist í dreifingu. 
Hannes Steindórsson fasteignasali opnar sig til þess að koma í veg fyrir að ósannindi komist í dreifingu.  Aðsend

Fyrr í dag birti Hannes Steindórsson, formaður Félags fasteignasala og bæjarfulltrúi í Kópavogi pistil á Facebook síðu sinni. Pistilinn segist hann hafa verið knúinn til þess að skrifa vegna hótana fjölmiðla sem myndu ekki birta sannleikann.

Í pistlinum segir Hannes frá baráttu sinni við alkóhólisma og ógöngum sem hann lenti í á veitingastað í Svíþjóð.

„Rétt skal vera rétt, undirritaður sat einn inná veitingastað í svíþjóð að svara tölvupóstum og símtölum, á næsta borði setjast tveir herramenn og eru að drekka. Á einhvern óskiljanlegan hátt þigg ég boð um að drekka með þeim, það endar ekki betur en svo að ég lendi í áflogum við þessa menn og við erum beðnir um að yfirgefa veitingastaðinn, stuttu seinna kemur lögreglan og fylgir okkur út af staðnum, Fjörtíu og fjögurra ára þriggja barna faðir gisti fangageymslu þá nótt,“ segir Steindór í pistli sínum.

Í kjölfarið hafi hann flogið heim til Íslands og hafi tekið ábyrgð á atburðum kvöldsins sem um ræðir. „Eftir það fór ég beint á þann stað þar sem ég á heima, 12 spora samtök sem gera mig að betri manni, betri föður, betri syni,“ skrifar Hannes.

Í samtali við fréttastofu segi Hannes að það sé ekki honum líkt að birta efni sem þetta á Facebook síðu sinni en hann hafi neyðst til þess að gera það.

„Ef þú skoðar Facebook-ið mitt tíu ár aftur í tímann, það er ekkert svona á mínu Facebook-i en ég kæri mig bara ekki um að fjölmiðlar hóti manni með einhverri vitleysu þannig ég ákvað bara þrátt fyrir að það hafi verið erfitt, að segja frá þessu,“ segir Hannes.

Aðspurður hvort það hafi verið erfitt fyrir hann að birta pistilinn svarar hann því játandi.

„Það var það klárlega en það var betra heldur en að það væri birt einhver þvæla,“ segir Hannes. Hann ítrekar þó að honum finnst málið „ekki neitt merkilegt.“

Hannes tekur fram í pistlinum að hann segi frá þessu sjálfur, „þar sem ég sætti mig ekki við hótanir fjölmiðla.“

Pistilinn má sjá í heild sinni hér að ofan. 

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×