Innlent

Óttast að breyta eigi Þor­láks­höfn í rusla­kistu fyrir iðnað sem enginn annar vill

Jakob Bjarnar og Óttar Kolbeinsson Proppé skrifa
Jarðefni á borð við sand, móberg og vikur verða sífellt sjaldgæfari úti í heimi. Nú beina ýmis evrópsk fyrirtæki sjónum sínum til Íslands. Eitt þeirra vill ganga svo langt að brjóta niður heilt fjall úr íslenskri náttúru og flytja það út.
Jarðefni á borð við sand, móberg og vikur verða sífellt sjaldgæfari úti í heimi. Nú beina ýmis evrópsk fyrirtæki sjónum sínum til Íslands. Eitt þeirra vill ganga svo langt að brjóta niður heilt fjall úr íslenskri náttúru og flytja það út. Vísir/Vilhelm/Egill

Ef fram fer sem horfir á Þorlákshöfn eftir að taka stakkaskiptum á allra næstu árum; stórfelld flutningsstarfsemi og vinnsla jarðefna af áður óþekktri stærðargráðu sem til stendur að nota sem íblöndunarefni í sement úti í Evrópu, mun breyta Þorlákshöfn til frambúðar. Úr friðsælu sjávarþorpi í annasaman verksmiðjubæ.

Fréttaflutningur af fyrirhugaðri stórfelldri efnistöku á vikri á Mýrdalssandi við Hafursey sem til stendur að flytja með suðurströndinni og flytja þá út frá Þorlákshöfn út til Evrópu og N-Ameríku, hefur vakið mikla athygli og fyrirætlanirnar mætt verulegri andstöðu. 

Meðal fjölmargra sem hafa tjáð sig um málið og fordæmt þessar hugmyndir er Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra sem segir þetta ekki koma til greina.

Miklu stærra verkefni sem minna hefur farið fyrir

En að sögn íbúa í Þorlákshöfn er vikurvinnslan á Mýrdalssandi aðeins annað verkefni af tveimur sem stendur fyrir dyrum af þessu tagi þar sem mæðir á Þorlákshöfn. Og verkefnið sem kostar efnistöku úr Mýrdalssandi sé talsvert minna en hitt sem muni breyta Þorlákshöfn og reyndar öllu nærumhverfi til frambúðar.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, oddviti H-listans í Þorlákshöfn segir að hitt verkefnið hafi ekki notið mikillar athygli, því miður, en það er að undirlagi HeidelbergCement, stærsta sementsframleiðanda í Evrópu. Það verkefni er þrisvar sinnum stærra en það sem tengist Mýrdalssandi sé miðað við efnið sem til stendur að flytja.

„Auk þess sem 49.000 fermetra lóð hefur verið úthlutað undir verksmiðju sem á meðal annars að vera með 40-50 metra háum turni sem mun gnæfa yfir bæinn um ókomna tíð. Þetta á að byggjast upp á svæði sem hefur fram að þessu verið vinsælt til útivistar, við fjöru sem kallast Skötubót og að golfvellinum sem mörg þúsund manns heimsækja á hverju ári,“ segir Ása Berglind í samtali við Vísi og Stöð 2.

Skjáskot af frétt Morgunblaðsins frá 30. október í fyrra þar sem fjallað er um þetta verkefni á jákvæðum nótum. Þorsteinn Víglundsson segir að það feli í sér kolefnisbindingu sements og Elliði Vignisson segir það skapa störf.skjáskot

Ætla að moka burt heilu fjalli í efnistökuna

Verkefnið er tröllaukið. Stefnt er að útflutningi sem nemur milljón tonnum á ári, einkum til Norður-Evrópu. Þorsteinn Víglundsson forstjóri Hornsteins ehf. sem HeidelbergCement á stóran hlut í, kynnti þessi áform fyrir bæjarstjórn Þorlákshafnar í október í fyrra og var þá miðað við að framkvæmdir við verksmiðjuna gætu hafist 2024 eða 2025. 

Morgunblaðið fjallaði um málið þá og sagði Þorsteinn blaðamanni þar frá því að unnið yrði efni úr íslensku móbergi og að það væri sérstaklega hugsað til að lækka kolefnisspor sements. Morgunblaðið ræddi einnig við Elliða Vignisson bæjarstjóra sem var afar jákvæður gagnvart þessum hugmyndum, sagði að verkefnið myndi skapa auknar tekjur til dæmis af hafnargjöldum og skapaði vinnu í samfélaginu.

Og útsendarar HeidelbergCement er búnir að finna námuna sem þarf. Til stendur að taka heilt fjall úr íslenskri náttúru, Litla-Sandfell í Þrengslum. Vinna á allt fjallið, alls 15 milljónir rúmmetra á þrjátíu árum og moka því burtu og flytja til Þorlákshafnar og þaðan til Evrópu. Þetta teljast óafturkræf áhrif.

Klippa: Stefna á að senda heilt fjall úr landi

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur skrifað umsögn um matsáætlunina og bendir á ýmis atriði í tengslum við þær fyrirætlanir þá að teknu tilliti til umhverfisáhrifa, ásýnd landsins og ferðamennsku. 

Fyrirtækið Eden Minging, sem hefur það verkefni með höndum að fjarlægja fjallið, segir hins vegar í svörum að Litla-Sandfell blasi vissu­lega við veg­far­endum á um fimm kíló­metra kafla á Þrengsla­vegi en það megi deila um hversu áber­andi það sé í íslenskri nátt­úru og „lík­lega geti aðeins „ör­lít­ill hluti lands­manna“ bent á það á korti. Litla-Sand­fell standi undir nafni, „það er ósköp lítið og minnir frekar á stóran hól“.

Vísir/Kristján

Hér má sjá hvernig umhorfs verður fyrir og eftir Litla-Sandfell með því að draga bendilinn til hliðanna. Myndir eru úr skýrslu Eflu um þessa fyrirhuguðu framkvæmd.

Tröllauknir efnisflutningar

Í Kjarnanum, sem tók málið til umfjöllunar í mars á þessu ári, segir að Nátt­úru­fræði­stofnun telji það „áhyggju­efni hvernig efn­istaka á Íslandi sé að þró­ast út í útflutn­ing á hrá­efni í stórum stíl, s.s. hrá­efni fyrir sem­ents­fram­leiðslu. Horfa þurfi heild­stætt á efn­is­töku og efn­is­flutn­inga og sam­legð­ar­á­hrif mis­mun­andi fyr­ir­tækja.“

Efnisflutningarnir eru miklir og ef marka má nýlega bókun í bæjarráði mun fyrirætlanir Heidelbergs vörubíl frá Þrengslum til Þorlákshafnar á 2-3 mínútna fresti á dagvinnutíma frá árinu 2025 og árið 2030 verður bíll á ferð í tengslum við þetta verkefni á 1 mínútu fresti á vegum sveitarfélagsins og til Þorlákshafnar.

Íbúar í Þorlákshöfn eru nú að vakna upp við vondan draum. Að sögn Ásu Berglindar var Íbúalistinn stofnaður einkum og meðal annars til að vekja íbúa til vitundar um hvað stæði til, en fyrirsjáanlega verða breytingarnar á bæjarfélaginu og reyndar Suðurlandi öllu, gríðarlega miklar. Og það sem meira er, þær stangist algerlega á við uppbyggingu í ferðaþjónustu og umhverfisvænni matvælaframleiðslu sem hefur verið í undirbúningi. 

Í viðtalinu við Ásu Berglindi, sem má sjá hér ofar, fer hún afar hörðum orðum um stefnu meirihlutans og sakar hann um að stefna að því að breyta Þorlákshöfn í „ruslakistu fyrir iðnað sem önnur sveitarfélög kæra sig ekki um“.

Þeim hjá Íbúalistanum tókst hins vegar ekki að koma málum á dagskrá í síðustu sveitarstjórnarkosningum, að sögn frambjóðenda minnihlutans tókst Sjálfstæðisflokknum að gera H-listann ótrúverðugan og yfirgnæfa málflutning hans með bæjarstjórann þar fremstan í flokki.

Elín Björg Jónsdóttir, fyrrverandi formaður BSRB, hefur búið í Þorlákshöfn í marga áratugi. Henni lýst afar illa á þessi áform:

Framkvæmdirnar munu hafa gríðarleg áhrif

Staðan í bæjarstjórn Ölfuss er nú sú að þar eiga sæti fjórir fulltrúar Sjálfstæðisflokks, tveir fyrir Framsókn og svo einn fyrir Íbúalistann. Þar var nýlega tekin fyrir umsókn um lóð á iðnaðarsvæði við Þorlákshöfn. Niðurstaða nefndarinnar, sem var jákvæð gagnvart umsókninni, var staðfest, en Ása Berglind lagði fram bókun þar sem fram koma áhyggjur þeirra sem sjá fyrir sér hrollvekjandi framtíð fyrir bæjarfélagið, gangi þessar fyrirætlanir eftir, fram með skýrum hætti:

„11. 2207028 - Umsókn um lóð iðnaðarsvæði við Þorlákshafnarhöfn. Niðurstaða nefndarinnar staðfest.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir fulltrúi H-lista lagði fram eftirfarandi bókun: Það er fyrirséð að fyrirhugaðar framkvæmdir Heidelberg munu hafa gríðarlega áhrif í Sveitarfélaginu Ölfusi og ekki síst í Þorlákshöfn. Það mun myndast nýtt kennileiti með fyrirhugaðri framkvæmd sem felur meðal annars í sér byggingu 40-50 metra turns sem mun gnæfa yfir bænum um ókomna tíð. Til samanburðar má geta þess að Hallgrímskirkjuturn er tæplega 75 metra hár. Þessi bygging verður það fyrsta sem mætir fólki sem kemur í bæinn okkar.

Þar fyrir utan er viðbúið að umferð þungra ökutækja með jarðefni mun margfaldast. Miðað við fyrirætlanir Heidelbergs má reikna með bíl á 2-3 mínútna fresti á dagvinnutíma frá árinu 2025 og ef fyrirætlanir ganga eftir þá mun árið 2030 verða bíll í tengslum við þetta fyrirtæki á 1 mínútu fresti á vegum sveitarfélagsins og til Þorlákshafnar.

Þá er ótalin sú umferð sem myndast í kringum aðra vöruflutninga til og frá Þorlákshöfn. Mikil ryk- og hávaðamengun verður óhjákvæmilega af fyrirhugaðri starfsemi sem fer illa saman við nálæga íbúabyggð Móans.

Það getur varla verið söluvænt að markaðssetja Þorlákshöfn sem miðstöð matvælaútflutnings og vera með námuvinnslur á sitthvorum enda hafnarinnar. Ég tel að það ætti að vera sjálfsagt mál að íbúar í Sveitarfélaginu Ölfusi fái greinargóða og raunhæfa kynningu á þessu verkefni, bæði á vef sveitarfélagsins og á íbúafundi þar sem þeim gefst kostur á að koma á framfæri spurningum og vangaveltum. Ef það þykir tilefni til að halda íbúafund og kynna hótelbyggingu sem er ekkert nema hugmynd á þeim tímapunkti sem hún er kynnt á opnum íbúafundi ætti það að vera eðlilegt og sjálfsagt að halda kynningarfund um þessa framkvæmd sem komin er á teikniborðið og mun hafa gríðarleg áhrif á íbúa, umhverfi, vegakerfi, umferðaröryggi og ásýnd þessa sveitarfélags.“

Svo hljómar bókun Ásu Berglindar þar sem framtíðin fyrir Þorlákshöfn er máluð heldur gráum litum.

Látlaus trukkaumferð til og frá Þorlákshöfn

Guðmundur Oddgeirsson íbúi í Þorlákshöfn átti sæti á framboðslista H-listans fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Hann reyndi að vekja athygli á þessum áformum fyrir kosningar og koma málinu á dagskrá í grein sem hann ritaði og birti á Vísi. 

Guðmundur er ómyrkur í máli, segir milljónir tonna ekkert smáræði og ígildi 240 bílfarma á hverjum virkum degi ársins auk ferðar til baka: „Sem sagt trukkur á mínútu fresti og slit á vegum sem jafngildir því að 28 milljónir fólksbíla fari um vegina á hverjum degi.

Til að fegra þetta allt saman stendur til að setja upp mölunarverksmiðju sem á að mala efnið allan sólarhringinn í verksmiðju sem yrði staðsett við höfnina, steinsnar frá fyrirhugaðri íbúðabyggð í Móanum. 

Sjáið fyrir ykkur hvaða áhrif það muni hafa á lífsgæði íbúa Þorlákshafnar, hljóðmengunin, rykið og hávaði frá vinnuvélum og verksmiðjunni alla daga ársins auk hávaða frá trukkum og vinnuvélum. 

Réttlætingin er sú að verið sé að búa til vistvænt íblöndunarefni í sement og þegar þetta er skrifað er alls ekki víst að það gangi upp. Getum við ekki kallað þetta fögur orð um ófagurt,“ segir í pistli Guðmundar.

Elliði vill leita leiða til að framkvæma hugmyndir HeidelbergCement

Eins og segir í bókun Ásu Berglindar telur hún fráleitt annað en að tröllauknar framkvæmdir á borð við þær sem hér er lýst fari í íbúakosningar. Hún segir nú vera að myndast þverpólitísk samstaða og í sveitarstjórnarlögum segi að ef fást undirskriftir tuttugu prósenta íbúa þá beri að fara með mál sem þessi í kosningu.

Elliði Vignisson er bæjarstjóri Ölfuss. Hann var hálforðlaus yfir lýsingum Ásu Berglindar á verkefninu. Þótti þær heldur ýktar þegar þær voru bornar undir hann:

Elliði segir eðlilegt að skoða hugmyndir HeidelbergCement og reyna að finna ásættanlega leið til að hægt sé að framkvæma þær. Hann kveðst þó hafa áhyggjur af þessum tíðu ferðum vöruflutningabíla, sem nefndir eru sem fyrsti kostur fyrirtækisins. Betur færi á því að koma upp léttlestarkerfi eða færiböndum milli Litla-Sandfells og Þorlákshafnar.


Tengdar fréttir

Í­búar á­hyggju­fullir vegna mögu­legrar efnis­töku

Formaður bæjarráðs Árborgar er hræddur um að vegakerfið í sveitarfélaginu þoli ekki þann þungaflutning sem fyrirhugaður er um Suðurland vegna efnistöku á vikri á Mýrdalssandi við Hafursey. Hann segir að það þurfi í mörg horn að líta.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.