Fótbolti

Ólöf: Við eigum séns í Evrópu

Atli Arason skrifar
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, leikmaður Þróttar, í leik gegn Selfossi fyrr í sumar.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, leikmaður Þróttar, í leik gegn Selfossi fyrr í sumar. Hulda Margrét

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, leikmaður Þróttar, fór á kostum í 5-1 sigri Þróttar á ÍBV í Bestu-deild kvenna í kvöld. Ólöf skoraði eitt mark og lagði upp önnur þrjú.

„Frábært að sigra þennan leik. Fyrir leikinn þá vissum við að þetta yrði erfitt og við þyrftum mikla þolinmæði og mér fannst við gera frábærlega vel í dag,“ sagði Ólöf Sigríður í samtali við Vísi eftir leik, áður en hún bætti við.

„Við héldum vel í boltann, við vorum ekki að þvinga sendingunum. Við héldum bara boltanum og biðum eftir að svæðin opnuðust og ég held það hafi gert sigurinn í dag.“

Eftir sigurinn er Þróttur einungis þremur stigum á eftir Breiðablik sem situr í 2. sæti en liðin tvö eiga eftir að mætast í lokaumferðinni. Þróttur getur því alveg veitt Blikum samkeppni um annað sætið, sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu, 

„Ef við byggjum ofan á það sem við erum búnar að vera að gera þá finnst mér eins og við eigum alveg séns í Evrópukeppni," svaraði Ólöf aðspurð út í möguleika liðsins.

Næsti leikur Þróttar er hins vegar gegn Þór/KA fyrir norðan þar sem Þróttur verður að sækja þrjú stig til að halda pressunni á toppliðin. Ólöf telur Þrótt vera í fínum málum fyrir norðan ef þær sýna sömu þolinmæði og þær gerðu gegn ÍBV í dag.

„Þór/KA droppa svolítið frá og þá verðum við að vera þolinmóðar á boltanum, spila honum á milli og bíða eftir að svæðin opnast,“ sagði Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, leikmaður Þróttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×