Lífið

Miller biðst af­sökunar og segist munu leita sér hjálpar

Árni Sæberg skrifar
Ezra Miller er á leið undir læknishendur.
Ezra Miller er á leið undir læknishendur. Roy Rochlin/Getty Images

Leikarinn Ezra Miller hefur beðist afsökunar á hegðun sinni undanfarin misseri og segist vera á leið í meðferð við geðrænum vanda.

„Hafandi gengið í gegnum alvarlega krísu undanfarið, skil ég núna að ég glími við fjölþættan geðrænan vanda og hef hafið meðferð við honum,“ segir Miller í fréttatilkynningu sem hán sendi Variety.

Mikið hefur gustað um Miller undanfarið, ekki síst í tengslum við komur háns hingað til lands. Myndband sem tekið var árið 2020 sýnir hán taka unga konu hálstaki fyrir utan skemmtistaðinn Prikið í Reykjavík og nú síðast steig önnur ung kona fram og deildi reynslu sinni af martraðarkenndri dvöl með Miller á Hótel Laugarbakka.

Þá hefur verið greint frá því að Miller hafi komist í kast við lögin á Hawaii og í Vermont í Bandaríkjunum.

Biðst afsökunar á að hafa valdið áhyggjum

Leikarinn hefur nú beðist afsökunar á hegðun sinni undanfarið án þess þó að gangast beint við ásökunum um ofbeldi.

„Ég vil biðja alla afsökunar sem ég hef valdið áhyggjum eða komið í uppnám með hegðun minni í fortíðinni. Ég hef einsett mér að vinna nauðsynlega vinnu til að komast aftur á heilbrigðan, öruggan og afkastamikinn stað í lífinu,“ segir hán.

Heimildarmaður Variety nálægt kvikmyndaframleiðandanum Warner Bros. Discovery segir að fyrirtækið styðji ákvörðun Millers að leita sér hjálpar. Hán leikur tvö stór hlutverk í kvikmyndum framleiðslufyrirtækisins, Flash í samnefndri kvikmynd um ofurhetjuna fótfráu og Creedence Barebone í myndaflokknum Fantastic Beasts, sem er forsaga að sögunum um Harry Potter.

Undanfarið hefur mikið verið rætt um það að Miller verði skipt út úr hlutverkunum tveimur með tilheyrandi framleiðsluvanda. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.