Erlent

Einn látinn og tugir særðir eftir sprengingu á flug­elda­markaði

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Slökkviliðsmenn og almennir borgarar vinna saman að því að slökkva elda í Yerevan.
Slökkviliðsmenn og almennir borgarar vinna saman að því að slökkva elda í Yerevan. AP/Daniel Bolshakov

Einn er látinn og að minnsta kosti 51 er særður eftir kröftuga sprengingu sem átti sér stað við flugeldageymslu á markaði í Jerevan, höfuðborg Armeníu, fyrr í dag.

Slökkviliðsmenn voru að störfum í margar klukkustundir til að slökkva elda sem kviknuðu í kjölfar sprengingarinnar í Sumalu-markaði í eftirmiðdaginn í dag. 

Ekki er enn vitað hvað olli sprengingunni en hér fyrir neðan má sjá myndband af Twitter sem sýnir frá augnablikinu sem sprengingin átti sér stað.

Björgunarsveitarmenn og sjálfboðaliðar leituðu að fólki sem enn var fast undir steinsteypurústum eftir sprenginguna. Armen Pambukhchyan, neyðarmálaráðherra, sagði að tvær systur hefðu verið dregnar lifandi úr rústunum og blaðamaður AP varð vitni að því þegar meðvitundarlaus drengur og slösuð kona voru dregin út úr rústunum.

Heilbrigðisráðuneyti Armeníu hefur staðfest dauðsfallið og fjölda særðra en þó er búist við því að þær tölur muni hækka eftir því sem líður á daginn.

Slökkviliðsmenn reyna að vinna bug á eldinum.AP/Vahram Baghdasaryan


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.