Innlent

Fleiri barir en börn í skólanum á Borgarfirði eystri

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Helgi Hlynur Ásgrímsson, íbúi á staðnum og sveitarstjórnarmaður í Múlaþingi. Hann segir Borgarfjörð eystri nafla alheimsins.
Helgi Hlynur Ásgrímsson, íbúi á staðnum og sveitarstjórnarmaður í Múlaþingi. Hann segir Borgarfjörð eystri nafla alheimsins. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það eru fleiri barir hérna en börn í skólanum“, segir sveitarstjórnarmaður Vinstri grænna í Múlaþingi en þá á hann við þorpið á Borgarfirði eystri. Mikil uppbygging er á staðnum, ekki síst í ferðaþjónustu og nú hafa fyrstu nýju íbúðarhúsin í fjörutíu ár verið byggð í þorpinu.

Það er ótrúlega fallegt og gaman að koma á Borgarfjörð eystri, þetta litla fallega þorp með um 130 íbúum. Ferðaþjónustan setur stóran svip á staðinn. Helgi Hlynur hefur búið meira og minna allt sitt líf á staðnum og veit því því allt um staðinn.

„Þetta er nafli alheimsins, þú þarft ekki meira en horfa í kringum þig og það er varla víðar á Íslandi, sem er fallegra en heldur en hér, segir Helgi Hlynur Ásgrímsson, íbúi á staðnum og sveitarstjórnarmaður.

Helgi Hlynur segir að ferðaþjónusta á staðnum sé á blússandi siglingu.

„Þetta er ekki alveg sjálfbært svona til lengdar eins og þetta er. Það eru sem sagt fleiri barir en börn í skólanum, en við verðum bara að vona að það lagist fljótlega. Það var verið að opna sjötta barinn í síðustu viku,“ segir Helgi Hlynur og hlær.

Það er margt að sjá og skoða á Borgarfirði eystri.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Helgi Hlynur er stoltur af höfninni á staðnum.

„Hér var og hafa aldrei verið neitt annað en trillur þannig að við höfum aldrei lent í stóráföllum með kvóta, það hefur aldrei verið neinn kvóti. En það eru tuttugu trillur hérna og flestar á strandveiðum.“

Helgi Hlynur segir að Hafnarhólminn sé mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn en þar er besta aðstaðan á Íslandi til að sjá lunda, það liggur við að það sé hægt að klappa honum í hólmanum.

Hafnarhólminn er mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn en þar er besta aðstaðan á Íslandi til að sjá lunda, það liggur við að það sé hægt að klappa honum í hólmanum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hvernig sérðu samfélagið þróast hérna næstu fimmtán til tuttugu árin?

„Ég vona að við náum þeim áfanga að það verði fleiri börn en barir einhvern tímann í framtíðinni. Það hefur verið að fjölga og það er verið að byggja hús í fyrsta skipti í 40 ár og ætli það sé ekki flutt inn í átta nýjar íbúðir á síðustu tveimur árum og nokkrar í byggingu.“

En hvernig er að heita Helgi Hlynur og að vera að tala við Magnús Hlyn?

„Ég var beðin að koma hérna í viðtal af því að ég væri svo sérkennilegur og mér finnst það magnað því ég er ekkert vissum að við hefðum fundið öllu sérkennilegri mann að tala við mig, ég er ánægður með þetta,“ segir Helgi Hlynur og skellihlær.

Hlynirnir, Magnús Hlynur og Helgi Hlynur.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.