Erlent

Nýjar ruslatunnur mörg ár í framleiðslu og kostar hvert eintak um 2,8 milljónir króna

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ein af frumgerðum Mjúka ferningsins, ruslatunnu sem kostar rúmlega 20 þúsund Bandaríkjadali að framleiða.
Ein af frumgerðum Mjúka ferningsins, ruslatunnu sem kostar rúmlega 20 þúsund Bandaríkjadali að framleiða. Ap/Eric Risberg

Ný tegund af ruslatunnum á götum San Francisco var meira en þrjú ár í framleiðslu og kostar hvert eintak hennar 21 þúsund Bandaríkjadali eða 2,8 milljónir íslenskra króna. Ruslatunnutegundin er ein af sex nýjum ruslatunnum sem hafa verið teknar í notkun í borginni í sumar.

Í átaki sínu til að stemma stigu við yfirflæðandi ruslatunnum San Francisco-borgar réðu borgaryfirvöld fyrirtæki til að hanna þessa nýju ruslatunnutegund sem gengur undir nafninu Soft Square eða Mjúki ferningurinn.

Frumgerð af tegundinni Salt og pipar sem er nýkomin á götur San Francisco-borgar.AP/Eric Risberg

Auk Mjúka ferningsins hannaði fyrirtækið tvær aðrar ruslatunnur, Grannvöxnu skuggamyndina (e. Slim Silhouette) og Salt og pipar, sem eru ekki síður kostnaðarsamar en hvert eintak af þeirri fyrrnefndu kostar nítján þúsund Bandaríkjadali á meðan hvert eintak af þeirri síðarnefndu kostar ellefu þúsund Bandaríkjadali.

Frumgerðir þessara þriggja tegunda, auk þriggja hefðbundinna ruslatunnutegunda, voru teknar í notkun í San Francisco í sumar. Íbúar borgarinnar munu síðan getað dæmt um ágæti ruslatunnanna með því að skanna QR-kóða á þeim og gefa þeim einkunn. 

Þannig telja borgaryfirvöld sig getað fundið hina fullkomnu ruslatunnu.

Leitin að nýrri ruslatunnu tekið langan tíma

Borgaryfirvöld hafa leitað að hinni fullkomnu ruslatunnu í þó nokkurn tíma, eða frá 2018 þegar ákveðið var að skipta út meira en þrjú þúsund ruslatunnum á götum borgarinnar. Þær ruslatunnu höfðu þá verið í notkun í næstum tuttugu ár og verður endanlega skipt út á næsta ári.

Ein af gömlu ruslatunnunum sem borgaryfirvöld vilja skipta út fyrir nýrri gerð.AP/Eric Risberg

Að sögn yfirvalda eru gömlu ruslatunnurnar ekki nægilega góðar þar sem þær eru með of stór göt sem geri fólki auðvelt fyrir að róta í ruslinu. Þá séu tunnurnar með hjarir sem þurfi sífellt að laga og lása sem sé auðvelt að brjóta upp.

Til að stuðla að því að íbúar taki þátt í að velja bestu ruslatunnuna er borgin búin að útbúa kortasjá þar sem íbúarnir geta séð hvar ruslatunnutegundirnar sex er að finna. Þannig geta íbúar leitað tunnurnar, notað þær og gefið þeim einkunn. Hér fyrir neðan má sjá kortasjánna. 

Að sögn Beth Rubenstein, talskonu deildar opinberra framkvæmda hjá San Francisco, hafa íbúar fram til september til að velja hvaða ruslatunna er best. Ruslatunnan sem verður fyrir valinu mun síðan taka við af gömlu ruslatunnunum á næsta ári.

QR-kóði á einum af Mjúku ferningunum þar sem fólk getur gefið ruslatunnunni einkunn.AP/Eric Risberg

Rubenstein segir að þar sem ruslatunnan sem verði fyrir valinu verði fjöldaframleidd muni kostnaðurinn lækka niður úr núverandi verði í um tvö til þrjú þúsund dollara á hvert eintak (um 270 þúsund til 400 þúsund íslenskra króna).

Það eru þó ekki allir spenntir fyrir þessu nýja átaki borgarinnar en Matt Haney, fyrrverandi eftirlitsmaður í Tenderloin-hverfi og fulltrúi þess á Kaliforníu-þingi, sagði að flestir íbúar hefðu viljað sjá borgina skipta gömlu tunnunum út fyrir ruslatunnur sem aðrar borgir nota með góðum árangri.

Þá sagði hann að „öll ruslatunnusagan lykti af spillingu“ og vísaði þar í að Mohammed Nuru, fyrrverandi formaður deildar opinberra framkvæmda í borginni, játaði sök í fjársvikamáli í janúar en hann sá um að úthluta samningnum fyrir framleiðslu ruslatunnanna.

Nánar má lesa um málið í frétt AP um ruslatunnurnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×