Verslunin Attikk á Laugavegi 90 selur merkjavörur í umboðssölu fyrir einstaklinga. Klukkan 06:19 í morgun brutu innbrotsþjófar sér leið í gegnum aðaldyr verslunarinnar og létu greipar sópa þegar þangað var inn komið.

Ýr Guðjohnsen, framkvæmdastjóri og eigandi Attikk áætlar að andvirði merkjavarnings sem stolið var nemi um einni milljón króna. Þá er ótalið það tjón sem unnið var á versluninni sjálfri. Ýr segir þó að verslunin sé vel tryggð fyrir innbrotum og því ætti allt að blessast á endanum.
Hún segir, í samtali við Vísi, að starfsfólk verslunarinnar vinni nú að því að bera kennsl á þær vörur sem er saknað og hafa samband við eigendur þeirra. „Þetta verður að sjálfsögðu allt greitt út,“ segir hún.
Einstakar vörur
Ýr segir að innbrotið sé sér nokkuð áfall, sér í lagi þar sem fyrirtækið hefur aðeins verið starfrækt í tæplega eitt ár. Hún segir þó að lögregla hafi þegar einn í haldi grunaðan um innbrotið og því sé ekki borin von að fá vörurnar til baka.
Hún segir að vörurnar sem stolið var séu að öllum líkindum einstakar eða til í fáum eintökum hér á landi, enda um dýrar merkjavörur að ræða. „Ég veit ekki hvað innbrotsþjófarnir ætla að gera við þessar vörur,“ segir hún.