Erlent

Maður grunaður um morð á fjórum múslimum hand­tekinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lögreglan hefur fundið bílinn sem hún hefur leitað að í tengslum við morðið á Naeem Hussain í Albuquerque og handtekið ökumanninn.
Lögreglan hefur fundið bílinn sem hún hefur leitað að í tengslum við morðið á Naeem Hussain í Albuquerque og handtekið ökumanninn. AP/Adolphe Pierre-Louis

Lögreglan í Albuquerque í Nýju-Mexíkó hefur handtekið mann sem er grunaður um að hafa myrt Naeem Hussain, 25 ára gamlan múslima, á föstudag og ók bíl sem lögreglan hefur verið að leita að í tengslum við morðið. Lögreglan grunar manninn einnig um að hafa skotið þrjá aðra múslima til bana í borginni.

Harold Medina, lögreglustjórinn í Albuquerque, greindi frá þessu í færslu á Twitter rétt fyrir klukkan sjö í kvöld. 

Þar segir hann að lögreglan hafi leitað uppi ökutæki sem er talið tengjast morðinu á múslima í Albuquerque. Bílstjórinn hafi verið handtekinn og hann sé sá sem lögreglan gruni helst um morð á fjórum múslimum í borginni á undanförnum .

Talið að morðin fjögur tengist

Talið er að morðið á föstudag tengist morðum á þremur öðrum múslimum sem voru skotnir til bana í austurhluta Albuquerque á undanförnum tíu mánuðum en þar af áttu þrjú morðanna sér stað á innan við tveimur vikum. Allir mennirnir fjórir eru múslimar sem eru af suður-asísku bergi brotnir.

Bíllinn sem lögreglan í Albuquerque hefur verið að leita að frá því á sunnudag, dökksilfraður Volkswagen Jetta, er fundinn og ökumaður hans líkaAP

Lögreglan hefur ekki staðfest að morðin fjögur tengist en þau segja að verið sé að rannsaka hvort það sé raunin. Þá hefur ekki enn komið fram hvort morðin fjögur séu rannsökuð sem hatursglæpir en það má teljast líklegt að svo verði ef þau tengjast.

Morðin hafi vakið mikinn óhug og ótta meðal múslima í borginni og greint hefur verið frá því fólk sé jafnvel orðið hrætt við að fara út fyrir hússins dyr.

Lögreglan hefur ekki greint frá því hvernig morðin áttu sér nákvæmlega stað en segir að í tilfellum fyrstu þriggja mannanna sem voru skotnir til bana, þeirra Muhammad Afzaal Hussain, Aftab Hussein og Mohammad Ahmadi, hafi verið „ráðist á þá úr launsátri, þeir skotnir og drepnir.“

Aðeins nokkrum klukkustundum eftir bænastund fyrir tvö fórnarlambanna á föstudag fannst Naeem Hussain látinn. Þriðji músliminn sem hefur verið drepinn á innan við tveimur vikum og sá fjórði frá því í nóvember á síðasta ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×