Fótbolti

Alfons og félagar skrefi nær riðlakeppni Meistaradeildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alfons og félagar eru einu skrefi frá riðlakeppniMeistaradeildar Evrópu.
Alfons og félagar eru einu skrefi frá riðlakeppniMeistaradeildar Evrópu. nordiskfootball

Alfons Sampsted og félagar hans í norska meistaraliðinu Bodö/Glimt eru komnir í fjórðu og seinustu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir að liðið gerði 1-1 jafntefli gegn litháíska liðinu Zalgiris í dag.

Alfons og félagar unnu fyrri leik liðanna 5-0 í Noregi og því var útileikurinn í dag hálfgert formsatriði.

Heimamenn í Zalgiris tóku þó forystuna í leiknum stuttu fyrir hálfleik og staðan var því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Joel Mugisha jafnaði hins vegar metin fyrir gestina á 51. mínútu áður en Petar Mamic lét reka sig af velli í liði Zalgiris með beint rautt spjald örfáum mínútum síðar.

Alfons lék allan leikinn á sínum stað í hægri bakverði, en lokatölur leiksins urðu 1-1. Bodö/Glimt vann því einvígið samanlagt 6-1 og er á leið í lokaumferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Þar mæta Alfons og félagar annað hvort króatíska liðinu Dinamo Zagreb eða búlgarska liðinu Ludogorets Razgrad. Dinamo Zagreb vann fyrri leik liðanna 1-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×