Innlent

Boðar bráðaaðgerðir í iðnnámi

Snorri Másson skrifar
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Menntamálaráðherra heitir því að stjórnvöld muni gera það sem hægt er til að tryggja að sem flestir fái aðgang að verknámi sem það vilja. Komið hefur fram að mun færri komast að en vilja í slíkt nám, en ráðherra segir hugsanlegt að ekki verði hægt að bregðast við öllum sem vilja komast að. 

Greint var frá því í fréttum í gær að um fimmtungur þeirra sem sækja um verknám á framhaldsskólastigi á Íslandi fái ekki skólavist. Í Tækniskólanum var um þriðjungi umsækjenda hafnað í vor. Þessi tölfræði er sögð stinga í stúf við það markmið stjórnvalda að fjölga verknámsnemum en ráðherra skólamála segir málið nú til skoðunar hjá starfshópi.

„Við erum að bíða eftir því að fá nákvæma sundurliðun á þessum hópi. Í hvaða greinar er þetta? Hver er ástæða þess að viðkomandi kemst ekki í nám? Er það fjármagn, húsnæðisskortur eða skortur á kennurum? Við reiknum með að fá þau gögn núna í næstu viku og í framhaldinu ætlum við okkur í aðgerðir til að bregðast við; bráðaaðgerðir og að vinna áfram að langtímaaðgerðum,“ segir Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra í samtali við fréttastofu. Hann segir það ánægjulegt að þeim fjölgi sem vilja fara í verknám en að í annan stað sé það áskorun sem hann hyggist taka á við að tryggja öllum pláss.

„Ég heiti því að við munum gera það sem við getum til að sem flestir geri það en það kann vel að vera að áskoranirnar sem búa að baki geri það að verkum að við getum ekki brugðist við öllum en við ætlum að gera það sem við getum til að grípa sem flesta,“ segir Ásmundur.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra segir það áskorun að tryggja sem flestum nám á þessu sviði en segir gleðilegt að átak í verknámi beri ávöxt.

„Það er greinilega núna búið að skila þeim árangri að eftirspurnin er orðin mjög mikil, eða fjöldi þeirra sem vilja fara í þetta nám er mjög mikill,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.