Innlent

Hverarúgbrauð og brauðsúpa í símaklefa

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Dísa að athuga með rúgbrauðið sitt í einum af hverunum í Reykhólum en það tekur sólarhring að baka brauðið.
Dísa að athuga með rúgbrauðið sitt í einum af hverunum í Reykhólum en það tekur sólarhring að baka brauðið. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hverarúgbrauð, taupokar, brauðsúpa og símaklefi, hvað ætli það eigi sameiginlegt?

Það er mikið af heitu vatni og hverum í Reykhólasveit og þá er um að gera að nýta sér jarðhitann. Það gerir Dísa Sverrisdóttir, hress og skemmtileg kona á staðnum því hún bakar alltaf rúgbrauð í einum hvernum og selur það síðan í sjálfsafgreiðslu í símaklefa í þorpinu, ásamt öðrum vörum og fleira fólk á staðnum eru með sínar vörur til sölu í símaklefanum.

„Ég er hérna með rúgbrauðið og brauðsúpuna í símaklefanum. Svo hef ég verið að sauma þessa taupoka, sem eru hérna hangandi og svo er einn hérna með þörungamjöl, setur í fötur og selur. Og þetta er allt gert fyrir þá heimamenn, sem eru með einhverja atvinnustarfsemi hérna,“ segir Dísa.

Dísa er mjög ánægð með gufuhverinn sinn.

„Já, já, þetta er fínn gufuhver, sem hefur reynst mér vel. Það tekur 24 tíma að baka eitt rúgbrauð.“

Dísa við símaklefann á Reykhólum, sem hefur slegið í gegn hjá ferðamönnum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Dísa segir símaklefann vera mikla lyftistöng fyrir þorpsbúa og ekki síður ferðamenn, sem hafa gaman að koma við í klefanum og gera góð kaup.

„Það er opið allan sólarhringinn, það er náttúrulega misjafnt hvað er til, það er ekki alltaf hægt að vera með fullt en það rennur út öðru hvoru,“ segir Dísa.

En borgar fólk alltaf uppsett verð eða?

„Já, það er eiginlega betra en heiðarlegt því stundum borgar það meira en það þarf, ef það á ekki klinkið, þá bara tekur það upp seðilinn,“ segir Dísa og hlær.

Nokkrir heimamenn eru með vörur sínar til sölu í klefanum.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.