Í mars síðastliðnum fór mikill fjöldi friðaðra æðarfugla illa út úr stórum olíuleka sem varð þegar tíu þúsund lítrar af olíu láku frá olíutanki Orkubús Vestfjarða, niður í tjörnina á Suðureyri þar sem hún átti svo greiða leið niður í sjóinn og hafnarsvæðið.
Aflífa þurfti fuglana þrátt fyrir hetjulegar björgunaraðgerðir Súgfirðinga þar sem reynt var að fjarlægja olíu úr fjöðrum þeirra.
Um fjörutíu Súgfirðingar gengu í gær til minningar æðarfuglanna. Íbúar gengu með krossa um háls og sungu andarbæjarlagið.
„Þetta var mjög skemmtilegt. Við fórum frá félagsheimilinu og enduðum hjá fótboltavellinum og mynduðum hring í æðaröndinni sem við vorum búin að búa til. Þetta var mjög fallegt augnablik þar sem við heiðruðum minningu andanna og þetta var mjög gaman. Vorum með tónlist undir og þetta var alveg ógleymanlegt fyrir okkur öll sem vorum á svæðinu,“ sagði Einar Mikael Sverrisson, skipuleggjandi göngunnar.
Auk þess að heiðra minningu andanna var tilgangur minningargöngunnar að passa að svona gerist ekki aftur.
„Það sem er mikilvægt er að þetta má ekki gleymast og það sem var ekki til staðar á sínum tíma var að það voru engir verkferlar hjá tilteknum stofnunum eða ábyrgðaraðilum og þeir voru búnir að lofa því að þessu yrði kippt í liðinn hið snarasta. Þannig að við vonumst til þess að þeir ætli að standa við það því þetta er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að við missum ekki þetta traust út á við út af ferðaþjónustunni að við séum að bera virðingu fyrir náttúrunni.“