Fótbolti

Sævar Atli fullkomnaði frábæra endurkomu Lyngby

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sævar Atli kom inn af bekknum og skoraði jöfnunarmark Lyngby.
Sævar Atli kom inn af bekknum og skoraði jöfnunarmark Lyngby. Twitter/@LyngbyBoldklub

Íslendingalið Lyngby gerði 3-3 jafntefli á heimavelli við Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Liðið lenti 3-0 undir en kom til baka.

Lyngby leikur undir stjórn Freys Alexanderssonar en félagið er nýliði í dönsku úrvalsdeildinni. Ærið verkefni beið liðsins í kvöld er Midtjylland, sem hlaut silfur í deildinni í fyrra, kom í heimsókn.

Midtjylland fór kröftuglega af stað en Sory Kaba koma liðinu yfir eftir fjögurra mínútna leik og Nikolas Dyhr tvöfaldaði forystuna eftir stundarfjórðungsleik. Anders Dreyer skoraði þá þriðja mark gestanna á 32. mínútu en Lasse Emil Nielsen minnkaði muninn fyrir Lyngby skömmu fyrir hlé.

Freyr gerði tvær breytingar í hálfleik og þá kom Sævar Atli Magnússon inná á 55. mínútu.

Um sex mínútum eftir að Sævar Atli kom inn fékk Lyngby víti. Það var Mathias Kristensen sem steig á punktinn og breytti stöðunni í 3-2. Það var svo ekki fyrr en á 87. mínútu sem jöfnunarmarkið kom en þar var Sævar Atli að verki er hann kom boltanum framhjá Elíasi Rafni Ólafssyni, markverði Midtjylland, sem þurfti að sækja boltann í markið í þriðja sinn. Leiknum lauk því 3-3.

Lyngby leitar enn fyrsta sigurs síns á tímabilinu en liðið er með tvö stig eftir fjóra leiki í tíunda sæti. AaB frá Álaborg og OB frá Óðinsvéum eru fyrir neðan Lyngby með eitt stig en eiga leik inni um helgina.

Midtjylland er þá með fimm stig eftir fjóra leiki í sjötta sæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.