Fótbolti

Íslenskir töfrar á Skjetten Stadion

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Ingi Gunnþórsson var hetja Skjetten í norsku D-deildinni og skoraði sigurmarkið frá miðju.
Alexander Ingi Gunnþórsson var hetja Skjetten í norsku D-deildinni og skoraði sigurmarkið frá miðju. Facebook/Skjetten Fotball

Alexander Ingi Gunnþórsson átti sannkallaðan stórleik í norsku D-deildinni í vikunni þegar hann hjálpaði liði sínu, Skjetten, að vinna 4-3 sigur á Mjölner i Norsk Tipping deildinni.

Alexander Ingi átti þátt í öllum fjórum mörkum síns liðs í leiknum, skoraði tvö og lagði upp hin tvö.

Það voru hins vegar þessi tvö glæsimörk hans sem kölluðu á fyrirsögnina „Íslenskir töfrar á Skjetten Stadion í kvöld“ á miðlum Skjetten.

Alexander skoraði fyrra markið sitt með laglegu skoti af vítateigslínunni upp í vinkilinn en það er seinna markið hans sem tryggði Skjetten öll þrjú stigin.

Það mark skoraði strákurinn með stórkostlegu skoti frá miðju vallarins eftir að hann sá að markvörðurinn hjá Mjölner var kominn of langt út úr markinu sínu.

Afrek Skjetten var enn meira af því að liðið var manni færri í klukkutíma og tveimur mönnum færra síðustu tólf mínúturnar.

Alexander Ingi er 21 árs gamall og uppalinn í Hugin á Seyðisfirði en hann hafði reynt fyrir sér hjá Lilleström áður en hann skipti yfir í Skjetten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×