Innlent

Ekki þægi­legt að vera fluttur slasaður niður grófa vegina

Eiður Þór Árnason skrifar
Hanna Dís Elvarsdóttir hvetur fólk til þess að búa sig vel.
Hanna Dís Elvarsdóttir hvetur fólk til þess að búa sig vel. Vísir

Stríður straumur hefur verið að gosstöðvunum í dag og gær þrátt fyrir að viðbragðsaðilar hafi varað fólk við því að gera sér ferð á staðinn. Björgunarsveitarfólk hefur líkt og í síðasta gosi reynt að huga að öryggi ferðalanga en eitthvað hefur verið um slys á fólki frá því í gær.

Hanna Dís Elvarsdóttir björgunarsveitarkona er meðal þeirra sem hafa hefur staðið vaktina í Meradölum í dag.

„Mér finnst þau hafa verið að hegða sér frekar vel, fólk er að halda sig frá hrauninu og er ekki að reyna að gera eitthvað of mikið,“ sagði Hanna í kvöldfréttum Stöðvar 2. Nokkuð sé um það að fólk sem átti sig ekki á aðstæðum sé illa klætt og í lélegum skóm til göngu.

Aðspurð um slys segir hún eitthvað hafa verið um það að fólk hrasi og detti. Erfitt sé að ganga á svæðinu og leiðin löng. Greint hefur verið frá því að ferðalangur hafi verið fluttur af svæðinu með þyrlu í nótt eftir óhapp.

Hanna beinir þeim tilmælum til fólks sem ætli að skoða gosið að búa sig vel undir erfiðar aðstæður. Mikilvægt sé að klæða sig vel, vera í góðum skóm og taka með gott nesti. Það geti verið áskorun að koma fólki niður af fjallinu ef eitthvað kemur upp á.

„Það er mjög erfitt að keyra þarna og mjög grófir vegirnir svo það er ekkert þægilegt að sitja aftur í bíl vel slasaður.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.