Innlent

Gunnar Smári hellir sér yfir seðla­banka­stjóra

Jakob Bjarnar skrifar
Gunnar Smári vandar seðlabankastjóra ekki kveðjurnar og segir hann grímulaust ganga erinda auðmanna. Hann geri engar athugasemdir við methagnað banka og stórfyrirtækja en grenji úr sér augun ef skúringakonan semþrífur skrifstofuna hans vilji eiga fyrir mat út mánuðinn.
Gunnar Smári vandar seðlabankastjóra ekki kveðjurnar og segir hann grímulaust ganga erinda auðmanna. Hann geri engar athugasemdir við methagnað banka og stórfyrirtækja en grenji úr sér augun ef skúringakonan semþrífur skrifstofuna hans vilji eiga fyrir mat út mánuðinn. vísir/vilhelm

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að ef komandi kjarasamningar muni reynast „óraunhæfir“ og kyndi undir verðbólgu, þá muni Seðlabankinn bregðast við því.

Að sögn Ásgeirs er sú lögboðin skylda bankans, honum beri að tryggja virði gjaldmiðilsins og það þýði miklar vaxtahækkanir. Þetta kemur fram í ViðskiptaMogganum í dag.

Gunnar Smári Egilsson, einn helsti leiðtogi Sósíalistaflokksins les viðtalið með sínum hætti:

„Mitt hlutverk er að viðhalda auð hinna ríku og ég mun gera allt sem þarf til þess,“ skrifar Gunnar Smári á Facebook, í orðastað Ásgeirs. Hann telur engan vafa á því leika að seðlabankastjóri gangi erinda hinna ríku, fyrst og síðast: 

„Ef þið haldið ykkur ekki á mottunni á meðan, þið auma launafólk og annars flokks borgarar, mun ég hækka vexti til að verja auð hinna ríku og grafa með því undan lífskjörum ykkar, sprengja upp húsnæðiskostnaðinn svo þið munið ekki eiga fyrir mat fyrir börnin ykkar. Pakkið sem þið eruð; reynið að átta ykkur á hvar þið búið. Þið búið í verstöð Samherja þar sem hin fáu og ríku ráða öllu og þið engu.“

Gunnar Smári segir Ásgeir ekki gera neinar athugasemdir við methagnað banka og stórfyrirtækja né við stjórnlaust okur hinna ríku; „níðingsverk þeirra gegn samfélaginu. En hann öskrar úr sér augun þegar hann hugsar til þess að skúringakonan sem þrífur skrifstofuna hans vilji fá að eiga fyrir mat út mánuðinn.“

Sé litið til þess hversu ómyrkur í máli Gunnar Smári er má búast við því að komandi kjaraviðræður, en samningar eru lausir í haust og hefur verðbólga sett strik í reikninginn hvað varðar kaupmátt launa, muni bæði reynast harðar og snúnar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×