Fótbolti

Úrúgvæ vill halda HM hundrað árum seinna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fulltrúar ríkjanna fjögurra tilkynna áform sín um að halda HM 2030.
Fulltrúar ríkjanna fjögurra tilkynna áform sín um að halda HM 2030. EPA-EFE/Raul Martinez

Argentína, Paragvæ, Síle og Úrúgvæ hafa sótt um að halda heimsmeistaramót karla í fótbolta árið 2030. Þá verða 100 ár frá fyrsta heimsmeistaramótinu í sögunni sem fór fram í Úrúgvæ 1930.

Úrúgvæar vilja fá mótið heim á 100 ára afmælinu en því hefur Alejandro Domínguez, forseti suður-ameríska knattspyrnusambandsins, CONMEBOL, einnig kallað eftir.

„Þetta er draumur heillar heimsálfu. Það verða fleiri heimsmeistaramót en það verður bara eitt 100 ára afmæli og það verður að halda það heima," sagði Domínguez.

Úrúgvæ hélt mótið aðeins einu sinni, það fyrsta árið 1930. Síle hélt mótið árið 1962 en Argentína hélt það árið 1978.

Suður-Ameríkuríkin fá samkeppni frá Spáni og Portúgal sem hafa einnig sótt um að halda mótið árið 2030. Bretland og Írland íhuguðu að sækja um réttinn til að halda mótið en beina sjónum sínum frekar að EM 2028.

Búist er við að Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, taki ákvörðun um hvar mótið skuli haldið árið 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×