Fótbolti

Enska knattspyrnusambandið íhugar að bjóða Wiegman nýjan samning

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sarina Wiegman hefur gert ótrúlega hluti með enska landsliðið.
Sarina Wiegman hefur gert ótrúlega hluti með enska landsliðið. Lynne Cameron - The FA/The FA via Getty Images

Eftir að hafa tryggt enska kvennalandsliðinu í knattspyrnu sinn fyrsta Evrópumeistaratitil í knattspyrnu gæti þjálfarinn Sarina Wiegman verið að fá nýjan samning við liðið.

Wiegman tók við liðinu í september á seinasta ári og liðið hefur ekki tapað einum einasta leik undir hennar stjórn. Raunar er liðið ekki bara taplaust undir hennar stjórn, því enska kvennalandsliðið hefur unnið alla sína leiki síðan Wiegman tók við stjórnartaumunum.

Slíkur árangur vekur eðlilega athygli. Enska knattspyrnusambandið, FA, ræðir nú um þann möguleika að bjóða hollenska þjálfaranum nýjan samning til ársins 2025.

„Hún fær nokkrar vikur í frí núna. En þegar hún kemur til baka þá munum við ræða við hana,“ sagði Sue Campbell, yfirmaður kvennaknattspyrnunnar innan enska knattspyrnusambandsins.

„Hún þarf á fríi að halda. Hún er búin að vinna ótrúlegt starf. Við þurfum að muna það að hún tók bara við í september.“

„Það voru allir að spyrja mig hvort ég héldi að hún gæti unnið EM og ég talaði alltaf um að hún hefði jög stuttan tíma. En guð minn góður, hún er svo sannarlega búin að búa til lið. Ekki bara leikmennirnir, heldur allt liðið í kringum hana,“ sagði Campbell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×