Fótbolti

Kvennaleikir þrír mest sóttu fótboltaviðburðir ársins

Valur Páll Eiríksson skrifar
Frá Wembley í gær.
Frá Wembley í gær. vísir/Getty

Áhorfendamet var slegið þegar England vann Þýskaland fyrir framan rúmlega 87 þúsund manns í úrslitum Evrópumóts kvenna á Wembley í Lundúnum í gær. Þrír mest sóttu fótboltaleikir ársins eru allir í kvennaboltanum.

Þónokkrir áfangar hafa unnist í kvennaknattspyrnu síðustu misseri en kvennalið Barcelona vakti ef til vill hvað mesta athygli á nýliðnum vetri. Frábær árangur liðsins á meðan karlalið félagsins var brunarústir einar hvatti fólk til þess að mæta á völlinn í stórum stíl.

Tveir mest sóttu fótboltaleikir ársins voru tveir heimaleikir Barcelona en eftir úrslitaleik gærdagsins eru þrír mest sóttu fótboltleikir ársins allir úr kvennaboltanum. Flestir mættu á leik Barcelona gegn Sveindísi Jane Jónsdóttur og stöllum hennar í Wolfsburg á Nývangi í Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Þangað mættu 91.648 manns, aðeins fleiri en mættu á leik Barcelona og Real Madríd í Meistaradeildinni, 91.553 manns. Þá fór úrslitaleikur gærdagsins upp í þriðja sæti yfir mest sóttu fótboltaviðburði ársins, er 87.192 sáu England vinna Þýskaland.

Þá horfði tæplega 17 og hálf milljón manns í Englandi á leikinn í sjónvarpi, sem er um fimm sinnum fleiri en sáu vinsælasta leik ensku karladeildarinnar á síðustu leiktíð. Rúmlega þrjár og hálf milljón sáu þá leik Manchester United og Liverpool í október í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×