Innlent

Utan­ríkis­ráðu­neytið þver­tekur fyrir full­yrðingar Frétta­blaðsins

Árni Sæberg skrifar
Ekki er mikil ánægja með fréttaflutning dagsins í utanríkisráðuneytinu á Rauðarárstíg.
Ekki er mikil ánægja með fréttaflutning dagsins í utanríkisráðuneytinu á Rauðarárstíg. Vísir/Vilhelm

Í morgun var greint frá því að Atlantshafsbandalagið hyggðist reisa langan viðlegukant í Finnafirði í Langanesbyggð. Utanríkisráðuneytið hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að engin áform séu uppi um uppbyggingu varnarmannvirkja á því svæði.

Í Fréttablaðinu í dag var haft eftir heimildum blaðsins að utanríkisríkisráðuneytið hefði farið fram á að langur viðlegukantur fyrir NATO yrði reistur norðan megin í Finnafirði við bæinn Gunnólfsvík.

Þar myndi NATO hafa aðstöðu til að birgja skip sín og hvíla áhafnir. Þá myndi Landhelgisgæslan einnig fá aðstöðu á svæðinu.

„Engin áform eru um uppbyggingu varnarmannvirkja í Finnafirði og engar beiðnir, hvorki formlegar né óformlegar, hafa verið lagðar fram af hálfu utanríkisráðuneytisins og staðhæfingar um beiðni Atlantshafsbandalagsins eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Fréttin er því röng,“ segir í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins.

Einfalt hefði verið að svara spurningum blaðamanns

Í frétt Fréttablaðsins segir að ekki hafi fengist svör við fyrirspurnum blaðsins hjá ráðuneytinu.

„Blaðamaður hafði samband við fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins sem er í sumarfríi erlendis og var vísað á staðgengil. Blaðamaður hafði ekki samband við staðgengil eða neinn hjá ráðuneytinu til þess að leita staðfestingar á þeim röngu upplýsingum sem hann byggði skrif sín á. Er þetta miður þar sem einfalt hefði verið að koma á framfæri upplýsingum og svara fyrirspurnum um málið,“ segir í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir

Kannast ekki við meinta uppbyggingu NATO í Finnafirði

Í morgun var greint frá því að Atlantshafsbandalagið hyggðist reisa langan viðlegukant í Finnafirði í Langanesbyggð. Sveitarfélagið hefur nú gefið út tilkynningu þar sem segir að engin erindi hafi borist sveitarfélaginu vegna málsins.

Óska eftir upp­byggingu á Langa­nesi fyrir NATO

Utanríkisráðuneytið er sagt hafa óskað eftir því að langur viðlegukantur verði reistur norðanmegin í Finnafirði í Langanesbyggð. Kanturinn er ætlaður Atlantshafsbandalaginu en Landhelgisgæslan fengi einnig aðstöðu þar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.