Erlent

Börn meðal látinna vegna mikilla flóða í Appa­lachia

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Minnst fimmtán hafa látist í flóðunum.
Minnst fimmtán hafa látist í flóðunum. AP Photo/Timothy D. Easley

Umfangsmikil leit stendur yfir eftir fólki sem er saknað eftir að mikil flóð þurrkuðu út heilu samfélögin í Appalachiafjöllum. Björgunarsveitir hafa með hjálp þjóðvarðliðsins leitað fólks í allan dag en að sögn ríkisstjóra Kentucky hafa minnst fimmtán farist í flóðunum. 

Gífurlegt úrhelli hefur verið í Appalachiafjöllum undanfarið sem endaði með gífurlegri flóðbylgju sem gleypti þorp og bæi í Appalachiadölunum. Gífurlegur kraftur var í flóðbylgjunni og hafa heimili og ökutæki eyðilagst. Þá hafa rigningarnar sömuleiðis valdið aurskriðum sem rofið hafa rafmagnslínur, svo fátt eitt sé nefnt. Vegna þess eignatjóns sem hefur orðið hefur ríkisstjórinn sett af stað söfnun fyrir fórnarlömb náttúruhamfaranna.

Andy Beshear ríkisstjóri Kentucky segir í samtali við AP að meðal þeirra fimmtán Kentuckybúa sem látist hafi í náttúruhamförunum séu börn. 

Fátækustu svæði Bandaríkjanna hafa orðið verst úti í flóðunum.AP/Ryan C. Hermens

„Og ég geri ráð fyrir að fjöldi látinna muni margfaldast, jafnvel bara í dag,“ sagði Beshear. 

Viðbragðsaðilar hafa bjargað meira en fimmtíu manns með þyrlum og hundruðum á jörðu niðri í dag og í gær. Enn eru þó hundruð, jafnvel þúsund strönduð. Meira en tvö hundruð hafa leitað skjóls í fjöldahjálparstöðvum frá því að flóðin hófust. 

Enn rignir á svæðinu og vegna sífelldra aurskriða og vatnsflóða úr hlíðum Appalachiafjallanna hafa björgunarsveitir þurft að nota þyrlur og báta til að komast að strönduðum. 

Flóðin hafa verið hvað verst og valdið mestu eignartjóni á einu fátækasta svæði Bandaríkjanna. Það er því ljóst að íbúar Appalachia muni margir hverjir líða mikið vegna hamfaranna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×