Innlent

Númera­plötur hækka um 136 prósent

Árni Sæberg skrifar
Samgöngustofa heldur utan um skráningar ökutækja.
Samgöngustofa heldur utan um skráningar ökutækja. Vísir/Vilhelm

Ný gjaldskrá Samgöngustofu tekur gildi í byrjun ágúst. Almenn verðhækkun er fimm prósent en athygli vekur að skráningarmerki, almennt kölluð númeraplötur, hækka í verði um 136 prósent.

Gjaldskrá Samgöngustofu var síðast hækkuð árið 2020. Þá nam almenn hækkun gjaldliða 2,5 prósent. 

Hækkun gjaldskrárinnar var tilkynnt starfsmönnum Samgöngustofu í gær, en Morgunblaðið greindi fyrst frá. Breytingin verður auglýst á sunnudaginn og birt á vef Samgöngustofu á mánudag.

Skatthækkun skilar sér í verð á númeraplötum

Verð á númeraplötu verður 6.300 krónur en var áður 2.665 krónur. Verðið skiptist nú í tvo liði, annars vegar 3.000 krónur í skattheimtu og hins vegar 3.300 krónur vegna efniskostnaðar og vinnslu. 

Skattheimta af númeraplötu var áður 1.500 krónur en skattinum var breytt fyrir nokkrum árum en kemur fyrst núna inn í gjaldskrá Samgöngustofu. Efniskostnaður og vinnsla kostaði áður 1.165 krónur.

Þá hækkar tímagjald sérfræðinga um 14,6 prósent í takti við almennar launahækkanir sem hafa skilað sér í gjaldskrá, að því er segir í tilkynningu Samgöngustofu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×