Erlent

Fyrr­verandi Repúblikanar og Demó­kratar sam­einast í nýjum flokki

Bjarki Sigurðsson skrifar
Andrew Yang er hann sóttist eftir því að verða frambjóðandi Demókrata til borgarstjórnakosninga í New York. Hann tapaði kosningunum.
Andrew Yang er hann sóttist eftir því að verða frambjóðandi Demókrata til borgarstjórnakosninga í New York. Hann tapaði kosningunum. EPA/Peter Foley

Fjöldi fyrrverandi ráðamanna og þingmanna úr röðum bæði Demókrata og Repúblikana hafa stofnað nýtt stjórnmálaafl í Bandaríkjunum. Flokkurinn mun bera heitið „Forward“ eða „Áfram“ og vonast stofnendur eftir því að ná til þeirra sem líkar ekki við tveggja flokka kerfi landsins.

Flokkurinn verður fyrst um sinn með tvo formenn, fyrrverandi forsetaframbjóðandann Andrew Yang sem bauð sig fram fyrir Demókrataflokkinn, og Christine Todd Whitman, Repúblikani og fyrrverandi ríkisstjóri New Jersey.

Flokkurinn verður formlega stofnaður þann 24. september næstkomandi í Houston á fyrstu ráðstefnu flokksins. Flokkurinn er kominn til vegna samruna þriggja félaga sem hafa verið stofnuð í Bandaríkjunum síðustu ár. Þau eru Endurnýjum Bandaríkin-hreyfingin, Þjónum Bandaríkjunum-hreyfingin og Áfram-flokkurinn en nýi flokkurinn mun bera nafn þess síðast nefnda.

Flokkurinn verður hugsaður sem miðjuflokkur en engin stefnumál hafa verið gefin út hingað til. Í umfjöllun Reuters kemur fram að flokkurinn muni nota slagorðið: „Hvernig munum við leysa stóru vandamál Bandaríkjanna? Ekki með því að fara til vinstri. Ekki með því að fara til hægri. Með því að fara Áfram.“

Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem flokkur er stofnaður í landinu til þess að reyna að koma tveggja flokka kerfinu af stalli, til dæmis Græni-flokkurinn, Frjálslyndiflokkurinn og Stjórnlagaflokkurinn.

Einhverjir Demókratar hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna stofnun flokksins og telja að hann muni frekar taka mikilvæg atkvæði af frambjóðendum Demókrata en Repúblikana. Því gætu Repúblikanar verið líklegri til að sigra harðar baráttur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.