Lífið

Verslunarmanna Helgi

Elísabet Hanna skrifar
Helgi er tilbúinn að taka helgina með trompi.
Helgi er tilbúinn að taka helgina með trompi. Aðsend

Helgi Björnsson ætlar að rifja upp streymistaktana á laugardagskvöldið kemur og verður með landsmönnum í beinni frá Tjörninni á tónleikunum: „Verslunarmanna Helgi“.

„Okkur langar að gera þetta aftur, einfaldlega vegna þess að það er margt fólk sem hefur gaman af því að geta fengið okkur til sín, hvar sem það er statt á landinu eða útí heimi. Allir hafa möguleika á því að skemmta sér með okkur og sínum vinum og vandamönnum“ sagði Helgi í tilkynningu fyrr í mánuðinum. 

Líkt og áður verða Reiðmenn vindanna með honum í fjörinu sem fór fyrst af stað árið 2020 vegna heimsfaraldursins og gladdi Íslendinga mikið í gegnum þá skrítnu tíma. Hér er hægt að nálgast allar nánari upplýsingar um streymið.

Blaðamaður fékk að heyra hljóðið í Helga sem er spenntur fyrir helginni:

Extra skemmtun í gegnum sjónvarpið

„Mér finnst rosaleg gaman að geta boðið upp á þennan valkost, fólk er orðið vant þessu: Að geta farið í bústað, verið í hjólhýsinu, á tjaldstæðinu eða heima með partý og stuð og geta fengið smá extra skemmtun í gegnum sjónvarpið. Fólk virðist vera búið að læra þetta, kann að meta uppsetninguna og finnst þetta skemmtileg viðbót við aðrar skemmtanir sem eru í boði um helgina,“ segir Helgi um streymið. 

Þegar kemur að staðsetningu tónleikanna verður Helgi glettinn og segir þá verða á skemmtilegum leynistað við Tjörnina sem á eftir að koma fólki skemmtilega á óvart. „Svo verð ég með frábæra gesti líka. Við ætlum að halda þeim sið að gefa þá ekki upp fyrirfram svo það verður einnig óvænt ánægja þegar þeir stíga á stokk.“

Það verða einnig góðir gestir á svæðinu.Aðsend

Endurtaka leikinn

„Við gerðum þetta í fyrra og það var rosalega gaman, við erum að halda uppi fjörinu á laugardagskvöld um verslunarmannahelgi og uppsetningin mun litast af því. Mikið stuð, stemning og mikið af partýlögum sem fólk getur dansað og sungið við,“ segir Helgi og er augljóst að markmiðið er einfalt: Að hafa gaman.

„Ég sé þetta fyrir mér þannig að þetta sé eins og gott Eurovision partý þar sem þú býður í grill, allir mæta og fá sér vínglas. Svo byrjar stuðið þar sem er hækkað í græjunum og allir dilla sér með og tónleikarnir verða partur af partýinu.“

Mikið líf og fjör framundan um helgina.

Framundan er enn meira fjör

Eftir tónleikana og allt skipulagið sem þeim fylgir segist Helgi mögulega eiga eftir að verða eins og sprungin blaðra en lætur það þó ekki stoppa sig á stærstu ferðahelgi ársins og ætlar að kíkja á Neskaupstað. 

Að helginni lokinni er svo ekkert nema stuð framundan: „Það er bara að hafa gaman og leika sér. Ég ætla að vera duglegur að ríða út í ágúst og síðan er næsta bara menningarnótt með Bylgjunni í Hljómskálagarðinum.“


Tengdar fréttir

Niður­staðan liggur fyrir og Einar gefur veðrinu um versló fall­ein­kunn

Veðurspáin fyrir verslunarmannahelgina hefur verið nokkuð á reiki síðustu daga og kom fram í gær að tvær helstu langtímaveðurspárnar hafi sýnt gjörólíka spá fyrir helgina. Þannig gerði önnur þeirra ráð fyrir því að lægð myndi ganga yfir landið með tilheyrandi áhrifum en hin ekki. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.